20. febrúar 2024

Íbúðaverðshækkanir eru undir verðbólgu tíunda mánuðinn í röð

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4 prósent á milli mánaða. Á ársgrundvelli hefur vísitalan lækkað um 1,2 prósent að raunvirði, þar sem nafnverðshækkun hennar hefur verið undir verðbólgu. Þetta er í tíunda mánuðinn í röð þar sem árshækkun vísitölunnar hefur ekki haldið í við almennar verðhækkanir.

Vísitöluna má nálgast með því að smella á þennan hlekk.  Á mynd hér að neðan má sjá ársbreytingu vísitölunnar, miðað við verðbólgu. Líkt og myndin sýnir voru  íbúðaverðshækkanir langt yfir verðbólgu á árunum 2021 og 2022, þegar vextir á húsnæðislánum voru í sögulegu lágmarki.

Í kjölfar vaxtahækkana Seðlabankans dregur úr árshækkunum á íbúðaverði á árinu 2022 og heldur sú þróun áfram árið 2023. Í apríl 2023 var árshækkun vísitölunnar orðin minni en verðbólgan, sem þýðir að íbúðaverð lækkaði að raunvirði á ársgrundvelli á höfuðborgarsvæðinu.

Þrátt fyrir raunverðslækkanir hefur aukinn kraftur mælst í verðhækkunum á íbúðaverði frá miðju síðasta ári, samhliða því sem verðbólga hefur minnkað. Enn mælast árshækkanirnar undir verðbólgu, en ef þróunin helst óbreytt á milli mánaða má búast við íbúðaverðshækkunum umfram verðbólgu á næstu mánuðum.

Gildi vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 997,4 í janúar 2024, en grunnur þess er janúar 1994. Síðastliðna þrjá mánuði hefur vísitalan hækkað um 0,9 prósent og síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 4,0 prósent.

Sérbýlishluti vísitölunnar er 1.026 stig í desember 2023 og hækkaði um hann um 0,1 prósent milli mánaða. Fjölbýlishluti vísitölunnar er 991 stig í desember 2023 og hækkaði um 0,4 stig milli mánaða.

For­­­­send­­­­ur

Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis eftir að útgildi hafa verið hreinsuð út. Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði.

Birtingu vísitölunnar er ætlað að varpa ljósi á þróun fasteignaverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun áskilur sér rétt til að endurskoða vísitöluna aftur í tímann í ljósi fyllri gagna eða fágaðri aðferðafræði. Vísitalan er ekki ætluð til að verðtryggja fjárskuldbindingar.

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um gögn um vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu frá 1994.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS