6. mars 2025
14. febrúar 2025
Leiguverðsjá gæti ofmetið meðalleigu um 5 prósent
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Gildum leigusamningum í leiguskrá fjölgaði um 778 í janúar
- Leiguskrá gæti vantalið samninga sem gerðir eru milli ættingja og vina
- Samanburður við leigumarkaðskönnun og lífskjararannsókn bendir til þess að meðalleiguverð í leiguverðsjá gæti verið lítillega ofmetið
Meðaltal leiguverðs gildra samninga í leiguskrá HMS gæti verið 5 prósent hærra en raunverulegt meðalleiguverð á markaði, ef tekið er tillit til raunverulegrar skiptingar leigumarkaðarins. Þetta kemur fram þegar upplýsingar úr leiguskrá eru bornar saman við árlega leigumarkaðskönnun HMS og lífskjararannsókn Hagstofu.
Alls tóku 1.654 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá í janúar, á sama tíma og 876 leigusamningar féllu úr gildi. Þannig fjölgaði gildum samningum um 778 milli mánaða í janúar. Um tveir af hverjum fimm nýjum leigusamningum vörðuðu leiguíbúðir á vegum einstaklinga og fjórðungur þeirra varðaði íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Hægt er að nálgast gögn úr leiguskrá HMS um fjölda nýrra leigusamninga sem tóku gildi og féllu úr gildi eftir mánuðum hér.
Leiguskrá vantelur leigusamninga sem eru gerðir af ættingjum og vinum
Samkvæmt árlegri leigumarkaðskönnun HMS býr stór hluti leigjenda í íbúðum sem leigðar eru út af einstaklingum, eða 41 prósent. Þá er einnig algengt að leigjendur leigi íbúðir af ættingjum sínum eða vinum, en samkvæmt nýjustu könnuninni er hlutfallið um 17 prósent sem er talsverð aukning frá fyrra ári þegar hlutfallið var 13 prósent. Þá leigja um 11 prósent íbúðir af einkareknum leigufélögum. Hlutfallslega skiptingu eftir tegund leigusala má sjá á meðfylgjandi mynd.
Niðurstöður leigumarkaðskönnunarinnar eru að miklu leyti í samræmi við niðurstöður úr nýjustu lífskjararannsókn Hagstofu frá árinu 2022, þar sem fram kemur að um 48 prósent heimila á íslenskum leigumarkaði leigi á almennum markaði. Önnur heimili á leigumarkaði njóti stuðnings einhvers konar úrræða eða búi endurgjaldslaust í leiguíbúðum sínum.
Samanburður á samsetningu leigumarkaðarins samkvæmt leiguverðsjá HMS, leigumarkaðskönnun og lífskjararannsókn Hagstofu má sjá á mynd hér að ofan. Samkvæmt henni er um þriðjungur gildra leigusamninga í leiguverðsjánni utan markaðsleigu, á meðan vægi slíkra samninga er töluvert meira í leigumarkaðskönnun HMS og lífskjararannsókn Hagstofu.
Helsta ástæða að baki lægra hlutfalli samninga utan markaðsleigu í leiguverðsjá, samanborið við leigumarkaðskönnun HMS og lífskjararannsókn Hagstofu eru samningar sem gerðir eru milli ættingja og vina. Slíkir samningar teljast ekki til markaðsleigu, en hafa flestir ekki verið skráðir í leiguskrá HMS.
Meðalleiguverð í leiguskrá gæti verið ofmetið um 5 prósent
Í leiguverðsjá HMS má finna meðalleiguverð gildra samninga, en það nam 220 þúsund krónum í janúar 2025. Verðsjáin sýnir einnig meðalleiguverð gildra samninga hjá einstaklingum, óhagnaðardrifnum leigufélögum, öðrum leigufélögum og sveitarfélögum og vægi þeirra eftir mánuðum.
Ef skipting leigumarkaðarins er í samræmi við niðurstöður leigumarkaðskönnunar HMS 2024 hefði meðalleiguverð gildra samninga hins vegar verið um 210 þúsund krónur á mánuði í janúar 2025, sem er um 4,5 prósentum lægra en leiguverðsjáin sýnir. Hér er gert ráð fyrir að leiga hjá ættingjum og vinum sé á sama verði og hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum.
Svipaðar niðurstöður fást ef skipting leigumarkaðarins er í samræmi við niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofu frá árinu 2022, en þá væri meðalleiguverð gildra samninga í janúar 2025 um 209 þúsund krónur, eða um 5,1 prósenti lægra en leiguverðsjáin sýnir.
Upplýsingar í leiguverðsjá í sífelldri uppfærslu
Hægt er að skrá upplýsingar um leigusamninga afturvirkt í leiguskrá. Leiguverðsjá HMS notast við upplýsingar úr leiguskrá og uppfærist í samræmi við hana og er þar af leiðandi möguleiki á að upplýsingar um verð og fjölda samninga sem taka gildi og falla úr gildi eftir mánuðum taki breytingum yfir tíma. Ekki er því hægt að tryggja fullkomið samræmi í birtingu slíkra upplýsinga frá einum tíma til annars.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS