29. ágúst 2024

Kaupsamningar á öðrum ársfjórðungi mun fleiri í ár

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Kaupsamningar á öðrum ársfjórðungi voru 58 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra, ef frá eru talin uppkaup Þórkötlu og íbúðakaup þeirra sem höfðu lögheimili í Grindavík
  • Tæplega þúsund fleiri samningar voru gerðir á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu borið saman við sama tíma 2023 og tæplega 600 fleiri samningar samanborið við síðasta ársfjórðung
  • Aukin eftirspurn á fasteignamarkaði er ekki einungis bundin við suðvesturhorn landsins, heldur fjölgar kaupsamningum einnig annars staðar á landinu

Alls voru gefnir út 4.453 kaupsamningar á öðrum ársfjórðungi, en að frádregnum samningum sem tengjast uppkaupum Þórkötlu og þeirra sem höfðu lögheimili í Grindavík voru kaupsamningarnir 3.260 talsins. Til samanburðar voru 2.060 kaupsamningar gefnir út á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tölum HMS um útgefna kaupsamninga.

Hægt er að nálgast mánaðarlegar tölur um fjölda kaupsamninga eftir landshlutum og sveitarfélögum, ásamt tölum um fjölda kaupenda með því að smella hér. Þar sést að kaupsamningar í ársfjórðungnum eru töluvert fleiri en á fyrri tímabilum.

Stór hluti samninganna má rekja til uppkaupa fasteignafélagsins Þórkötlu, en félagið hefur fest kaup á 748 íbúðum á nýliðnum ársfjórðungi. Á sama tíma hafa einstaklingar sem áttu lögheimili í Grindavík keypt 563 fasteignir á fyrstu tveimur fjórðungum þessa árs.

Sjá má fjölda kaupsamninga eftir ársfjórðungum frá árinu 2021 á mynd hér að neðan. Líkt og myndin sýnir eru kaupsamningarnir alls 58 prósentum fleiri á öðrum ársfjórðungi heldur en á sama tímabili í fyrra, ef talin eru frá uppkaup Þórkötlu og fasteignakaup Grindavíkurbúa.

Kaup­samn­ing­um fjölg­ar mest í ná­grenni höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins

Kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu voru 2.290 talsins á öðrum ársfjórðungi og hafa þeim fjölgað um 80 prósent samanborið við annan ársfjórðung í fyrra. Kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu sex mánuðum ársins fjölguðu um 55 prósent milli ára, en þeir voru í heildina 3.981 talsins í ár samanborið við 2.574 kaupsamning á sama tímabili í fyrra.

Rétt um helmingur samninga á höfuðborgarsvæðinu var gerður um íbúðarhúsnæði í Reykjavík en hlutfallið var 60 prósent á sama tíma í fyrra. Kaupsamningar í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu hafa tæplega tvöfaldast á milli ára. Í Garðabæ hafa þinglýstir kaupsamningar ekki verið jafnmargir frá árinu 2006, en þar var hlutdeild nýrra íbúða einnig há. Af 400 kaupsamningum á fyrri hluta ársins í Garðabæ voru 40 prósent þeirra um nýtt íbúðarhúsnæði.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var fjölgunin mest, en þar voru kaupsamningar alls 779 á öðrum ársfjórðungi, að frádregnum uppkaupum Þórkötlu. Á sama tíma í fyrra voru gerðir 363 kaupsamningar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, svo kaupsamningum hefur fjölgað þar um 115 prósent.

Í öðrum landshlutum fjölgaði kaupsamningum einnig töluvert á milli ára. Heildarfjöldi kaupsamninga utan höfuðborgarsvæðisins og nágrenni þess nam 600 á nýliðnum ársfjórðungi, í samanburði við 424 á sama tíma. Fjölgunin nemur því 42 prósentum á milli ára.

*Íbúð telst vera ný ef byggingarár er innan við tveimur árum frá útgáfudegi samnings.

Gögn á bakvið myndirnar eru aðgengileg hér

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS