22. nóvember 2024
31. desember 2023
Verðmat fasteigna hækkar um 1.800 milljarða milli ára
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Í dag, 31. desember, tekur nýtt fasteignamat gildi en í því felst áætlað verðmat allra fasteigna hér á landi. Alls eru um 221 þúsund fasteignir á Íslandi og jókst verðmæti þeirra talsvert milli ára, eða um 1,8 billjón króna (1.800 milljarða). Sérfræðingar fasteignaskrár HMS mátu allar fasteignir landsins, bæði íbúðarhús og atvinnuhúsnæði og heildarvirði þeirra telst vera 14,6 billjónir króna. Þetta jafngildir 36,6 milljónum króna á hvern íbúa á Íslandi eða um 48,2 milljónir á hvern íbúa sem er 18 ára og eldri.
Á að gefa raunhæfa mynd af verðmæti fasteigna
Fasteignamatið er endurmetið árlega og var matið, sem nú tekur gildi, fyrst kynnt fasteignaeigendum í júní og miðaðist við gangverð fasteigna í febrúar 2023. Verðþróun það sem eftir lifir af árinu kemur ekki inn í matið fyrr en árið á eftir. Fjölmörg tól og gagnabankar nýtast við verðmatið en aðferðafræðin sem notuð er við fasteignamatið á að gefa raunhæfa mynd af verði fasteigna. Meðal annars er horft til nýlegra viðskipta með sambærilegt húsnæði á hverjum stað. Frestur til að gera athugasemd við nýja fasteignamatið rann endanlega út í gær, 30. desember.
Fasteignamatið er mikilvægt tæki fyrir annars vegar fjármálastofnanir, sem líta til þess við lánveitingar til íbúðakaupa og hins vegar fyrir sveitarfélög, sem miða gjaldtöku sína við það, en fasteignagjöld eru oft í kringum 10-20% af árlegum skatttekjum sveitarfélaga.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS