3. nóvember 2025
3. nóvember 2025
HMS vill ekki leggja niður embætti byggingarfulltrúa
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Tillögur HMS að breyttu byggingareftirliti fela ekki í sér að leggja niður byggingarfulltrúaembætti, heldur breytt hlutverk þeirra
 - HMS leggur áherslu á opið samtal og samvinnu við sveitarfélög í breytingum á byggingareftirliti
 - Nýtt kerfi getur aukið eftirlit, fagmennsku og gagnsæi
 
Í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar um breytingar á byggingareftirliti vill HMS koma á framfæri að tillögur stofnunarinnar fela ekki í sér að leggja eigi niður embætti byggingarfulltrúa. Tillögur HMS má finna í Vegvísi að breyttu byggingareftirliti, en þar er gert ráð fyrir að hlutverk byggingarfulltrúa breytist á meðan eftirlit er fært til óháðra skoðunarstofa.
Breytt hlutverk byggingarfulltrúa og aukið faglegt eftirlit
Byggingarfulltrúi sveitarfélagsins Hornafjarðar og varaformaður Félags byggingarfulltrúa hélt því fram í viðtali við Morgunblaðið sem birt var í dag að HMS legði til að embætti byggingarfulltrúa yrði lögð niður eða gerð óvirk í nýjum tillögum að breyttu byggingareftirliti. Engar slíkar tillögur eru hins vegar að finna í tillögum HMS, sem lesa má um í ofangreindum vegvísi.
Í vegvísinum er hins vegar lagt til að eftirlit með byggingaraðilum verði fært til óháðra skoðunarstofa sem hafa sérþekkingu á öllum þeim sviðum sem tengjast mannvirkjagerð. Þetta telur HMS vera nauðsynlegt til að tryggja faglega yfirferð á tæknilegum uppdráttum og sérlausnum sem fylgja mannvirkjum.
HMS hefur óskað eftir fundi með sveitarstjóra og sviðsstjóra sveitarfélagsins sem um ræðir til að fara yfir sjónarmið sem fram komu í viðtalinu við Morgunblaðið og skýra tillögurnar sem lagðar eru fram í vegvísinum. HMS leggur áherslu á opið samtal og samvinnu við sveitarfélög og hagaðila í þessum mikilvægu breytingum.
Núverandi kerfi hefur ekki skilað tilætluðum árangri
Líkt og fram kemur í Vegvísinum er pottur brotinn í núverandi fyrirkomulagi við byggingareftirlit. Þar að auki hafa síðustu breytingar, þar sem áfangaúttektir voru færðar frá byggingarfulltrúum til byggingarstjóra, ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir.
Vegvísirinn gerir ráð fyrir að eftirlit verði ekki í höndum ráðgjafa sem hafa hagsmuni af eigin verkefnum. Lausnin felst í óháðum skoðunarstofum sem tryggja faglegt og hlutlaust eftirlit. Þetta er eitt af úrvinnslumálum vegvísisins sem HMS vinnur að í samstarfi við hagaðila.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




