30. september 2025
29. september 2025
Þrír af hverjum fjórum aðfluttum eru á leigumarkaði
- Um 74 prósent aðfluttra eru á leigumarkaði samanborið við um 15 prósent innfæddra
- Formenn Eflingar og VR benda á mikilvægi þess að stjórnvöld beini sjónum sínum að leigumarkaði sem hefur verið vanmetinn um tæpan helming
- Aðgerðarpakki frá ríkisstjórninni í húsnæðismálum er væntanlegur um miðjan október
Staða aðfluttra íbúa á húsnæðismarkaði er frábrugðin stöðu innfæddra. Langflestir aðfluttir íbúar eru á leigumarkaði og upplifa þar af leiðandi skertara húsnæðisöryggi en innfæddir sem búa flestir í eigin húsnæði. Þá eru leigjendur af erlendum uppruna ólíklegri en íslenskir leigjendur til þess að þiggja húsnæðisbætur, auk þess sem bæturnar duga skemur hjá erlendum heimilum á leigumarkaði.
Fjallað var um húsnæðisaðstæður aðfluttra á opnum fundi í húsakynnum HMS að Borgartúni 21 fyrr í dag. Ítarlega samantekt úr erindi HMS um stöðu erlendra á húsnæðismarkaði má lesa í skýrslu sem hægt er að nálgast með því að smella á hnappinn hér að neðan.
Húsnæðisaðstæður aðfluttra 2025
Á fundinum fjallaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, jafnframt um reynslu Eflingar af stöðu erlendra félagsmanna á húsnæðismarkaði. Samkvæmt Sólveigu Önnu upplifa félagsmenn Eflingar húsnæðisóöryggi í verulega miklum mæli og ánægja þeirra með það húsnæði sem þeir hafa aðgang að er ekki nægilega mikil.
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, ræddi einnig samspil húsnæðismála og vinnumarkaðarins á fundinum. Í ávarpi sínu sagði Halla að niðurstöður könnunarinnar bentu til þess að stærð leigumarkaðarins hér á landi sé ekki eins frábrugðinn leigumörkuðum í nágrannalöndum og áður hefur verið talið. Samkvæmt Höllu er mikilvægt að stefnumótun hins opinbera taki mið af þessum nýju upplýsingum og segir hún ljóst að það sé ekki hægt að ganga að séreignarstefnunni sem vísri.
Aðgerða að vænta frá ríkisstjórninni
Ragnar Þór tilkynnti að aðgerðapakki frá ríkisstjórninni í húsnæðismálum sé væntanlegur í síðasta lagi um miðjan októbermánuð. Í pakkanum yrði miðað að því að kyrrstaða í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði yrði rofin, en Ragnar Þór sagði að lykilvandinn sé að framboð af byggingarlandi sé ekki nægt til þess að hægt sé að fara í hagkvæma uppbyggingu.
Skoða má upptöku af fundinum í spilaranum hér að ofan. Þar að auki má nálgast glærur Kristínar Amalíu með því að smella hér.