21. nóvember 2025

Hærri framleiðni og meiri framleiðnivöxtur í byggingargeiranum hér á landi en í samanburðarlöndum

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Framleiðni í byggingariðnaði hér á landi er hærri en í samanburðarlöndum samkvæmt skýrslu OECD
  • Lausum störfum í byggingariðnaði fækkaði milli ára
  • Meiri skortur er á starfsfólki í byggingariðnaði en í öðrum greinum

Ný skýrsla OECD sýnir að framleiðni í byggingariðnaði sé hærri á Íslandi en í samanburðarlöndum og jafnframt að framleiðni hafi vaxið hér á landi undanfarinn áratug en dregist saman annars staðar. Vinnuaflseftirspurn í byggingariðnaði er meiri en í öðrum atvinnugreinum um þessar mundir og lausum störfum fækkaði lítillega á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu HMS fyrir nóvember 2025.

Bygg­ing­ar­geir­inn fram­leiðn­ari á Ís­landi en í öðr­um OECD-lönd­um

OECD birti nýlega skýrslu um framleiðni fyrirtækja á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er framleiðni á Íslandi há heilt á litið, þó að hún sé mismikil milli atvinnugreina. Líkt og í mörgum öðrum OECD-löndum hefur þó hægt á framleiðnivexti undanfarna tvo áratugi.

Samkvæmt skýrslu OECD er framleiðni vinnuafls í byggingariðnaði á pari við meðalframleiðni í íslenska hagkerfinu. Framleiðni vinnuafls í byggingariðnaði á Íslandi er hins vegar hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum og í öðrum OECD-löndum. Framleiðni í byggingariðnaði hefur jafnframt vaxið undanfarinn áratug hér á landi, á sama tíma og hún hefur dregist saman á hinum Norðurlöndunum og í öðrum OECD-löndum, líkt og sjá má á mynd 3 í skýrslu OECD.

Vinnu­afls­eft­ir­spurn mest í bygg­ing­ar­iðn­aði

Óverulegar breytingar hafa orðið á eftirspurn eftir starfsfólki í byggingariðnaði og mannvirkjagerð allra síðustu misseri, en lausum störfum í greininni fækkaði lítillega milli ára. Hlutfall lausra starfa í byggingariðnaði stendur nú í 6,6%, samanborið við 6,9% á sama tíma í fyrra. Samkvæmt fyrirtækjakönnun Gallup frá því í september er vinnuaflseftirspurn mest í byggingariðnaði, en þar telja 41% fyrirtækja skort vera á starfsfólki. Í öðrum atvinnugreinum er hlutfallið 5-27%.

Milli ársfjórðunga fækkaði lausum störfum í hagkerfinu í heild um 160, eða úr 5.140 í 4.980 milli annars og þriðja ársfjórðungs. Í byggingariðnaði voru hins vegar 100 fleiri laus störf í boði á nýliðnum þriðja ársfjórðungi samanborið við annan ársfjórðung, eða 1.360 í stað 1.260. Í nýlegri frétt HMS má lesa að 130 fyrirtæki í byggingargeira voru nýskráð á þriðja ársfjórðungi á sama tíma og 22 fyrirtæki urðu gjaldþrota.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS