15. ágúst 2025
15. ágúst 2025
Gildum samningum í leiguskrá fjölgaði um 340 í júlí
- Um 1.700 nýir leigusamningar tóku gildi í júlí
- Meðallengd tímabundinna samninga í leiguskrá er 12,7 mánuðir
- Fermetraverð í tímabundnum leigusamningum er hærra en í ótímabundnum samningum
Gildum samningum í leiguskrá fjölgaði um 337 í júlí þar sem 1.683 samningar tóku gildi á móti þeim 1.346 sem féllu úr gildi. Árstíðarsveifla einkennir fjölda samninga sem taka gildi en þeim fjölgar á haustin þegar margir leigusamningar um námsmannaíbúðir taka gildi í ágústmánuði. Álíka fjöldi samninga tók gildi í júlí í fyrra en færri féllu úr gildi og því fjölgaði gildum samningum meira í júlí 2024.
Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr leiguskrá um miðjan ágústmánuð.
Meðallengd tímabundinna samninga í leiguskrá 12,7 mánuðir á þessu ári
Leigusamninga má flokka eftir því hvort þeir séu tímabundnir eða ótímabundnir. Tímabundnir leigusamningar hafa fyrir fram skilgreindan lokadag en ótímabundnir samningar falla ekki úr gildi nema annað hvort leigutaki eða leigusali óski eftir uppsögn samningsins.
Gildir leigusamningar í leiguskrá í ágústbyrjun 2025 skiptast nokkuð jafnt á milli tímabundinna og ótímabundinna samninga, en um 53 prósent leigusamninga eru ótímabundnir og um 47 prósent eru tímabundnir.
Meðallengd þeirra 9.825 tímabundnu samninga sem skráðir hafa verið í leiguskrá fyrstu sjö mánuði þessa árs er 12,7 mánuðir. Meðallengd allra tímabundinna samninga sem skráðir voru í leiguskrá á sama tímabili í fyrra er 12,4 mánuðir.
Hlutfallsleg skipting á milli tímabundinna og ótímabundinna samninga er nokkuð breytileg eftir tegund leigusala, líkt og myndin hér að neðan gefur til kynna. Tímabundnir samningar eru hlutfallslega flestir meðal leigusala sem eru einstaklingar, en tæplega 62 prósent af öllum gildum leigusamningum þar sem leigusali er einstaklingur eru tímabundnir samningar.
Hið gagnstæða á hins vegar við um leigusamninga þar sem leigusali er sveitarfélag, en sveitarfélögin hafa það hlutverk að sjá þeim fyrir húsnæði sem ekki hafa tök á að verða sér úti um húsnæði til leigu eða eignar með öðrum hætti. Um 81 prósent leigusamninga um íbúðir á vegum sveitarfélaga eru ótímabundnir samningar.
Fermetraverð tímabundinna samninga að jafnaði um 9 prósent hærra á höfuðborgarsvæðinu
Leiguverð á hvern fermetra í tímabundnum samningum á höfuðborgarsvæðinu er 3.968 krónur samanborið við 3.634 krónur í ótímabundnum samningum, eða um 9 prósent hærra að jafnaði. Munurinn er minni í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en meðalfermetraverð leigu er um 5 prósentum hærra í tímabundnum samningum samanborið við ótímabundna.
Á landsbyggðinni er hlutfallslegur verðmunur enn minni, en á Akureyri er fermetraverð í tímabundnum samningum að meðaltali tæplega 2 prósentum hærra en í ótímabundnum. Annarsstaðar á landsbyggðinni er verðmunurinn aftur á móti einungis 1 prósent.
Á mynd hér að neðan má sjá meðalfermetraverð leigu í gildum leigusamningum frá og með janúar 2025 á verðlagi júlí 2025 eftir landsvæðum.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um leiguverð eftir staðsetningu, gerð leigusamnings og tegund leigusala í Leiguverðsjá HMS.