15. febrúar 2022

Fyrsta mat á árlegri losun íslenskra bygginga liggur fyrir

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

HMS hefur í samstarfi við Byggjum grænni framtíð gefið út í fyrsta sinn skýrslu um heildar kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði. Hingað til hefur ekki verið framkvæmt heildrænt mat á losun byggingariðnaðarins. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

HMS hefur í samstarfi við Byggjum grænni framtíð gefið út í fyrsta sinn skýrslu um heildar kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði. Hingað til hefur ekki verið framkvæmt heildrænt mat á losun byggingariðnaðarins. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Árleg losun íslenskra bygginga er um 360 þúsund tonn CO2íg.
  • Byggingarefni, einkum steypa, áhrifaríkasti þátturinn í kolefnisspori íslenskra bygginga.
  • 30% af kolefnissporinu stafar frá orkunotkun á rekstrartíma bygginganna.

Gengið er út frá því að mannvirkjageirinn losi um 30-40% gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Upplýsingar um losun íslenskra mannvirkja hafa hins vegar verið fábrotnar hingað til. Nánast eini þátturinn í íslenskri mannvirkjagerð sem fellur undir beinar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum er losun frá vinnuvélum á framkvæmdarsvæðum. Ljóst er að það er þó aðeins takmarkaður hluti af þeirri heildarlosun sem stafar frá mannvirkjum; losun á sér ekki síður stað á öðrum lífsskeiðum þeirra.

 

Tekið var tillit til framangreinds í þessu fyrsta heildræna mati á losun íslenskra bygginga og kolefnissporið þannig metið út frá nokkrum fösum lífsferilsgreininga, þ.e. byggingarefnum, framkvæmdasvæðum og nýtingartíma mannvirkja.

 

Eins og sjá má á myndinni bera byggingarefnin (einkum steypa) ábyrgð á 45% af kolefnisspori íslenskra bygginga, 13% af heildarlosuninni koma frá flutningi byggingarefna á verkstað og vinnuvélum á verkstað, 12% stafa frá viðhaldi og loks 30% frá orkunotkun í rekstri bygginga, sem jafnan er stærsti losunarvaldurinn víða erlendis.

 

Þess má geta að eingöngu var unnt að meta losun frá byggingum að þessu sinni. Vonast er til að betri gögn liggi fyrir þegar næsta mat fer fram, þannig að hægt verði að taka með í reikninginn losun frá jarðvinnu, götum, brúm og öðrum þáttum mannvirkjagerðar á Íslandi.

 

Innbyggt kolefni heildarbyggingarmassans á Íslandi var einnig áætlað og er það u.þ.b. 12.700.000 tonn CO2íg. Til samanburðar þá var heildarlosun Íslands árið 2019 með landnotkun og skógrækt um 13.800.000 tonn CO2íg. Hið mikla magn innbyggðs kolefnis í íslenskum byggingum undirstrikar til hve mikils er að vinna með því að innleiða hringrásarhagkerfið og draga úr auðlindanotkun og úrgangsmyndun, með aukinni áherslu á endurnotkun, endurnýtingu og endurvinnslu.

 

Mat á kolefnislosun íslenskra bygginga er liður í samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífs um vistvæna mannvirkjagerð. Verkefnið kallast Byggjum grænni framtíð, hófst formlega í september 2021 og á rót sína að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Sérfræðingur HMS er verkefnastjóri en í verkefnastjórn sitja einnig fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Grænni byggð, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðinni Umhverfisstofnun og félagsmálaráðuneytinu.

 

Í grundvelli þessara niðurstaðna geta mannvirkjageirinn og stjórnvöld sett sameiginleg markmið um minni losun og skilgreint aðgerðaáætlun til að ná þeim markmiðum. Sú vinna er þegar hafin en nú þegar hafa hátt í 200 sérfræðingar hvaðanæva úr íslenska mannvirkjageiranum komið að henni. Útlit er fyrir að skilgreindar aðgerðir verði um 60 talsins, en 12 af þeim eru þegar komnar á framkvæmdastig. Tíðinda er að vænta í mars 2022.

 

 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS