14. nóvember 2024
14. nóvember 2024
Fullbúnum íbúðum hefur fjölgað um 736 í Reykjavík í ár
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Af 2.957 fullbúnum íbúðum sem hafa verið teknar í notkun á þessu ári eru 736 þeirra í Reykjavík, 440 í Hafnarfjarðarbæ og 247 í Sveitarfélaginu Árborg. Þessar upplýsingar eru aðgengilegar á mælaborði íbúða í byggingu, sem finna má á heimasíðu HMS.
Mælaborðið birtir samantekin gögn fyrir íbúðarhúsnæði úr Mannvirkjaskrá HMS. Mannvirkjaskrá nýtir meðal annars gögn úr fasteignaskrá ásamt gögnum sem sveitarfélög landsins afhenda til HMS. Samkvæmt mælaborði HMS telja íbúðir í byggingu og byggingaráform 7.839 íbúðir um land allt. Tæplega 60 prósent íbúðanna eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og um fjórðungur í nærliggjandi sveitarfélögum.
Byggingaráformum fjölgar á milli mánaða
Byggingaráform vísa til þeirra íbúða sem hafa fengið samþykkt byggingaráform eða útgefið byggingarleyfi, en framkvæmdir hafa enn ekki hafist. Þetta þýðir að verkefni er komið með lóð, hönnun er lokið og aðaluppdrættir hafa verið samþykktir af sveitarfélagi. Nú teljast 1.254 íbúðir til byggingaráforma af þeim 7.839 íbúðum sem fram koma í mælaborðinu og því 6.585 íbúðir þar sem framkvæmdir eru hafnar. Til samanburðar voru 826 íbúðir til byggingaráforma í október, líkt og HMS hefur bent á.
Fullbúnum íbúðum fjölgar mest í Reykjavík
Alls hafa 2.957 íbúðir orðið fullbúnar það sem af er ári og þar af 2.851 nýjar íbúðir, en íbúð telst fullbúin ef hún hefur fengið lokaúttekt eða er tekin í notkun. Fullbúnum íbúðum fjölgar mest í Reykjavíkurborg þar sem slíkar íbúðir telja 736 það sem af er ári. Fullbúnum íbúðum í Hafnarfjarðarbæ hefur einnig fjölgað hratt á síðustu mánuðum og hafa 440 íbúðir orðið fullbúnar þar á árinu. Utan höfuðborgarsvæðisins hafa flestar íbúðir orðið fullbúnar í Sveitarfélaginu Árborg á árinu, eða 247 talsins.
Meiri áhersla er lögð á minni sérbýli
Um 80 prósent íbúða sem eru í byggingu á landinu öllu eru í fjölbýlishúsum. Hlutfallið er enn hærra ef litið er til höfuðborgarsvæðisins þar sem hlutfallið þar er nærri 92 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu eru flest sérbýli í byggingu í Hafnarfjarðarbæ eða 133 talsins. Af landshlutunum eru flest sérbýli í byggingu á Suðurlandi eða um helmingur íbúða sem eru í byggingu og telja þau samtals 662 íbúðir. Útlit er fyrir að framboð sérbýlishúsa verði mest á næstunni í Sveitarfélaginu Árborg en þar er verið að byggja 215 íbúðir í sérbýli.
Íbúðastærðir fjölbýla sem eru í byggingu eru nokkurn veginn í sömu hlutföllum og íbúðastærðirnar í fullbúnum fjölbýlum. Hins vegar eru íbúðastærðir í sérbýlum þar sem meiri áhersla virðist vera á minni sérbýli. Til að mynda er fjórðungur sérbýla í byggingu 70-110 fermetra að stærð en aðeins 15 prósent fullbúinna sérbýla eru í þessari sömu stærð.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS