8. maí 2025
8. maí 2025
Færri nýjar íbúðir í ár heldur en á sama tíma í fyrra
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Samkvæmt mælaborði íbúða í byggingu eru nú samtals 6.401 íbúðir skráðar í byggingu um allt land. Þá hafa einnig verið gefin út byggingarleyfi eða skráð samþykkt byggingaráform fyrir 829 íbúðir, en framkvæmdir við þær eru ekki hafnar. Það sem af er ári hefur verið lokið við byggingu á 1.002 íbúðum og þar af 965 nýjum íbúðum. Um 54% fullbúinna íbúða á árinu eru á höfuðborgarsvæðinu, 17% á Suðurlandi, 13% á Suðurnesjum og 9% á Norðurlandi eystra.
Áfram dregur úr nýjum fullbúnum íbúðum
Fullbúnum íbúðum fjölgaði óvenju hratt á fyrstu mánuðum ársins í samanburði við síðastliðin ár. Í janúar voru 387 nýjar íbúðir skráðar fullbúnar, samanborið við 224 íbúðir á sama tíma í fyrra. Síðastliðna tvo mánuði hefur hins vegar dregið úr fjölda íbúða sem koma inn. Í apríl sl. urðu 205 nýjar íbúðir fullbúnar, en voru 298 í sama mánuði í fyrra. Frá áramótum hafa alls 965 nýjar íbúðir verið fullbúnar á landsvísu, sem er um 12% færri íbúðir ef miðað er við sama tímabil í fyrra þegar 1.078 íbúðir höfðu verið fullbúnar.
Ný verkefni farin af stað
Fjöldi íbúða sem metin eru sem byggingaráform hefur farið fækkandi en það má rekja til þess að framkvæmdir hófust á nokkrum stórum verkefnum á síðustu vikum. Þá færðust þau verkefni úr flokknum byggingaráform yfir í flokkinn íbúðir í byggingu. Dæmi um verkefni sem nýlega fóru af stað eru Áshamar 34-40 í Hafnarfirði (84 íbúðir), Eskiás 10 (27 íbúðir) og Grásteinsmýri 3-4 í Garðabæ (42 íbúðir) og Jöfursbás 9C í Reykjavík (27 íbúðir).
Fjöldi íbúða í byggingu hefur haldist stöðugur síðustu mánuði, sem bendir til þess að nýjar framkvæmdir hefjist á svipuðum hraða og eldri verkefnum er lokið. Með öðrum orðum heldur inn- og útflæði íbúða í byggingu nokkru jafnvægi um þessar mundir. Áframhaldandi slík þróun er jákvæð fyrir húsnæðismarkaðinn sem ætti að öllu óbreyttu að stuðla að auknum stöðugleika í framboði nýrra íbúða.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS