19. desember 2024
3. október 2024
Fáar nýjar lóðir staðfestar í september
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Alls voru 55 lóðir staðfestar í Fasteignaskrá HMS í september um land allt
- Flestar lóðir voru sumarhúsalóðir eða 22 talsins
- Nýjum íbúðarhúsalóðum fækkar úr 37 í ágúst í 10 í september
Í september voru 55 nýjar lóðir um allt land staðfestar í Fasteignaskrá HMS og fækkar þeim um 83 frá því í ágúst. Flestar lóðir voru sumarhúsalóðir eða alls 22 á meðan íbúðahúsalóðum fækkar úr 37 í ágúst í 10 í september.
Fjöldi nýskráðra lóða eftir öllum flokkum
Myndin hér að ofan sýnir mánaðarlegar tölur um fjölda nýskráðra lóða eftir öllum flokkum. Lóðir skráðar sem annað land eða einfaldlega lóð voru 11 talsins í september, en líklegast er að þessar lóðir breyti um gerð þegar fram líða stundir og verði þá skráðar sem atvinnu-, sumarhúsa- eða íbúðarlóðir.
Flestar nýjar sumarhúsalóðir voru staðfestar í Kjósarhreppi í september eða alls 9 lóðir, en alls hafa 23 sumarhúsalóðir verið staðfestar þar frá áramótum. Flestar íbúðarhúsalóðir voru staðfestar í Hörgársveit í september eða alls þrjár talsins.
Að meðaltali hundrað lóðir á mánuði
Með lagabreytingum sem tóku í gildi í ársbyrjun er landeigendum skylt að láta gera merkjalýsingu á nýjum fasteignum sem og breytingum á merkjum, en einungis þeir sem hafa fengið leyfi frá ráðherra mega gera merkjalýsingar. Smella má á þennan hlekk til að nálgast lista yfir merkjalýsendur sem hafa fengið bráðabirgðarleyfi.
Samhliða nýju fyrirkomulagi um merkjalýsingar breytti HMS ferlinu á bak við nýskráningu lóða í vor til að auka skilvirkni þess. Í kjölfarið fjölgaði nýskráðum lóðum töluvert, en þær voru tæplega 220 í maí samanborið við 20 í apríl. Frá maíbyrjun hafa að meðaltali um 100 lóðir verið skráðar í hverjum mánuði í Fasteignaskrá HMS.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS