17. október 2025

Dýrustu leigufermetrarnir í Vesturbæ og miðbæ Reykjavíkur undanfarna 12 mánuði

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Alls tóku 2.163 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá í september
  • Meðalfermetraverð leiguhúsnæðis var hæst í póstnúmerum 107 og 101 Reykjavík síðustu 12 mánuði
  • Stærstu leiguíbúðirnar og hæsta meðalleiguverðið var í póstnúmerum 201 og 203 Kópavogi undanfarið ár

Alls tóku 2.163 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá í september á sama tíma og 959 samningar féllu úr gildi samkvæmt mælaborði leiguskrár á vef HMS. Gildum leigusamningum fjölgaði þannig um 1.204 í mánuðinum. Undanfarna 12 mánuði hefur meðalleiguverð á fermetra verið hæst í Vesturbæ og miðbæ Reykjavíkur, þar sem meðalstærð leiguhúsnæðis hefur jafnframt verið með því minnsta sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu. Heildarleiguverð hefur aftur á móti að meðaltali verið hæst í Kópavogi á tímabilinu, enda leiguíbúðirnar að meðaltali stærri þar en í öðrum póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu.

Nýir leigu­samn­ing­ar á þriðja árs­fjórð­ungi fleiri en í fyrra

Á nýliðnum þriðja ársfjórðungi þessa árs tóku alls 7.694 leigusamningar gildi í leiguskrá á meðan 5.195 samningar féllu úr gildi. Nýskráðum leigusamningum fjölgaði þannig um 73% frá öðrum ársfjórðungi þessa árs, sem skýrist að mestu af árstíðarsveiflum í nýskráningu leigusamninga um námsmannaíbúðir sem ná hámarki í ágústmánuði.

Nýskráðum leigusamningum í leiguskrá fjölgaði aftur á móti um 12% frá þriðja ársfjórðungi 2024 þegar alls 6.882 samningar tóku gildi. Þá féllu 16% fleiri samningar úr gildi á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra.

Dýr­ustu leigu­fer­metr­arn­ir í Vest­ur­bæ og mið­bæ Reykja­vík­ur und­an­farna 12 mán­uði

Sé litið til undanfarinna tólf mánaða í leiguskrá á höfuðborgarsvæðinu má sjá að dýrast hefur verið að leigja húsnæði í Vesturbæ (107) og miðbæ (101) Reykjavíkur, en leiguverð þar var að jafnaði í kringum 4.500 krónur á hvern fermetra á tímabilinu. Meðalstærð leiguhúsnæðis á svæðinu var í kringum 62 fermetrar og meðalleigufjárhæð á bilinu 236 til 251 þúsund krónur á mánuði.

Hæsta meðalleigufjárhæðin var aftur á móti greidd fyrir leiguhúsnæði í póstnúmeri 201 sem nær til Smára-, Linda- og Salahverfis í Kópavogi, þar sem leigufjárhæð var að jafnaði um 308 þúsund krónur á mánuði. Meðalleigufjárhæð var jafnframt yfir 300 þúsund krónum í efri byggðum Kópavogs (203) og í Garðabæ (210) á tímabilinu. Þá var leiguhúsnæði að meðaltali stærst í þessum þremur póstnúmerum á tímabilinu, eða á bilinu 86 til 98 fermetrar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá meðalfermetraverð, meðalleigufjárhæð, meðalstærð leiguhúsnæðis og fjölda leigusamninga úr leiguskrá HMS eftir póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu þar sem tekið er tillit til leigusamninga síðastliðinna 12 mánaða.

Náms­manna­í­búð­ir í Vatns­mýri

Mesta virknin á leigumarkaði mælist í póstnúmeri 102, sem nær til Vatnsmýrinnar í Reykjavík, en á undanförnum 12 mánuðum hafa verið gerðir 1.880 leigusamningar um húsnæði á svæðinu. Athygli vekur að meðalstærð leiguhúsnæðis í Vatnsmýrinni er umtalsvert minni en í öðrum póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu, eða 45 fermetrar, og leigufjárhæðin þar af leiðandi einnig töluvert lægri, eða 168 þúsund krónur. Fermetraverðið er þó með því hæsta sem þekkist og hefur verið yfir 4 þúsund krónum að meðaltali síðastliðið ár.

Mikill fjöldi leigusamninga, lítil stærð leiguíbúða, lágt leiguverð og hátt fermetraverð í póstnúmeri 102 skýrist af því að innan Vatnsmýrinnar rúmast meðal annars stúdentagarðar Háskóla Íslands og háskólagarðar Háskólans í Reykjavík.

Til viðbótar við póstnúmer 102 voru yfir 1.500 leigusamningar gerðir um húsnæði í póstnúmerum 105 og 101 undanfarna 12 mánuði. Fjöldi leigusamninga í þessum þremur póstnúmerum var marktækt meiri en í öðrum póstnúmerum, en til samanburðar voru tæplega 800 samningar gerðir um leiguhúsnæði í póstnúmeri 200 í Kópavogi á tímabilinu. Fæstir samningar voru um íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi, eða 120 samningar undanfarið ár.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS