20. desember 2024
3. maí 2022
Breyttar reglur geta þýtt um 20-30% samdrátt á losun vegna steypu
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Straumhvörf verða í byggingariðnaði með fyrirhuguðum breytingum á steypukafla byggingarreglugerðar en með þeim er opnað fyrir grænar vistvænar lausnir og margvíslega möguleika til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Straumhvörf með breyttu regluverki um steypu
Straumhvörf verða í byggingariðnaði með fyrirhuguðum breytingum á steypukafla byggingarreglugerðar en með þeim er opnað fyrir grænar vistvænar lausnir og margvíslega möguleika til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Breytt regluverk um steypu var kynnt á fundi innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrr í dag. Drög að reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð (112/2012) hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn er til og með 16. maí nk.
Að mati HMS má áætla að breytingar á regluverki geti haft þau áhrif að um 20-30% samdráttur verði á losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar á steypu og um 6% samdráttur á losun vegna byggingariðnaðarins í heild.
Helstu breytingar í tillögunum felast í sveigjanlegri og markmiðsbundnum ákvæðum sem munu opna fyrir grænar lausnir en með óbreyttri áherslu á öryggi og gæði. Breytingarnar skapa m.a. hvata til að nota fjölbreyttari samsetningar í steypuíblöndun, nýta mismunandi blöndur fyrir ólíkar aðstæður og endurvinna steinefni. Markmiðið er að lágmarka umhverfisáhrif steypunnar og tryggja endingu hennar með tilheyrandi ávinningi. Þannig verður hægt að lækka kolefnisspor íslenskra bygginga en byggingarefnin sjálf bera ábyrgð á 45% kolefnissporsins samkvæmt nýlegri rannsókn HMS.
„Tillögur að nýju regluverki um steypu í byggingarreglugerð marka tímamót. Með breyttri notkun á steypu og tækninýjungum verður hægt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda umtalsvert án þess að slakað verði á kröfum um öryggi og gæði. Einnig koma breytingarnar til móts við hækkandi heimsmarkaðsverð á sementi og stuðla því að lægra byggingarverði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
„Núgildandi ákvæði um steypu í byggingarreglugerð eru óumhverfisvæn og var þarft að uppfæra kaflann til samræmis við gildandi Evrópustaðla. Nýjar tillögur koma til móts við fyrirsjáanlegan skort á sementi en ekki síður kröfur markaðarins um grænar lausnir. Tillögurnar hafa verið unnar með þátttöku fremstu sérfræðinga landsins í steypugerð og notkun,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Fjölbreyttari blöndur og endurvinnsla steinefna
Með nýjum reglum eru auknir möguleikar fyrir framleiðendur að nota fjölbreyttari efni í steypublöndur en hingað til hefur verið heimilað. Þannig er til dæmis heimiluð notkun endurunninna steinefna. Gerð er krafa um prófunaraðferðir á steinefnum til að takmarka áhættu á alkalískemmdum í steypu en líka til að tryggja endingu hennar og að lágmarka umhverfisáhrif steypunnar á líftíma mannvirkis.
Víðtækt samráð
Sérstakur faghópur hefur, í samstarfi við HMS og fjölda hagaðila innan byggingariðnaðarins, unnið tillögurnar að breytingum á steypukafla byggingarreglugerðar.
Fyrstu tillögur voru unnar í samstarfi við sérfræðingana Eyþór Rafn Þórhallsson dósent iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, Einar Einarsson, framkvæmdastjóra gæða- og umhverfissviðs Hornsteins og Guðbjart Einarsson, sviðsstjóra bygginga hjá Ríkiseignum.
Í framhaldi af því var settur á stofn samráðshópur fagaðila um tillögurnar. Í þeim hópi áttu sæti Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök iðnaðarins, Verkfræðingafélag Íslands, Arkitektafélag Íslands, Grænni byggð, Verkfræðistofnun Háskóla Íslands og Mannvit.
Við undirbúning tillagna var litið til gildandi Evrópustaðla og framkvæmdar á norðurlöndunum. Samráðshópurinn horfði einnig til skýrslu OECD um samkeppnismat á regluverki íslensks byggingariðnaðar og er markmiðsnálgun beitt með setningu meginreglna og viðmiðunarreglna í stað forskriftarákvæða. Er sú aðferðarfræði talin veita hönnuðum og framleiðendum fleiri möguleika án þess að kröfum um öryggi sé fórnað.
- Steypa er ábyrg fyrir um 5-8% heimslosunar á koltvísýringi.
- Steypa er annað mest notaða efni heims á eftir vatni.
- Um 90% af rúmmáli steypu eru úr efnum sem hægt að fá í nærumhverfinu, það er sandur, steinn, vatn og loft.
- Um 10% af rúmmáli hefðbundinnar steypu eru bindiefni hennar, það er sement, sem á stærstan hlut af kolefnisspori steypunnar.
- Kolefnisspor hefðbundinnar steypu hefur almennt minnkað um fjórðung á síðastliðnum 15 árum, einkum vegna þróunar á bindiefnum hennar.
Kolefnislosun frá íslenskum byggingum
- Árleg losun íslenskra bygginga er um 360 þúsund tonn CO2íg.
- Byggingarefni, einkum steypa, áhrifaríkasti þátturinn í kolefnisspori íslenskra bygginga (45% af kolefnisspori)
- 30% af kolefnisspori stafar frá orkunotkun á rekstrartíma bygginga.
- Nánar um kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS