22. nóvember 2024
20. febrúar 2024
Árborg stefnir að uppbyggingu yfir 2 þúsund íbúða næstu 10 árin
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Spáð er að íbúum í Sveitarfélaginu Árborg fjölgi um rúmlega 2.500 manns eða um 20 prósent næstu 5 árin
- Fjöldi íbúða í byggingu í dag er í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu, en lítið var af íbúðum á fyrstu byggingarstigum þar í síðustu talningu HMS
- Sveitarfélagið ætlar að skapa skilyrði svo mögulegt verði að byggja allt að 2.300 íbúðir á næstu 5 árum, sem yrði nægt til að fullnægja íbúðaþörf fyrir næstu 10 árin
Sveitarfélagið Árborg hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024, en samkvæmt henni ætlar sveitarfélagið að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu 2.350 íbúða á næstu 5 árum.
Endurskoðuð húsnæðisáætlun byggir á mannfjöldaspá sem áætlar að mannfjöldi í sveitarfélaginu aukist um 46,6 prósent næstu 10 árin. Þetta jafngildir um 3,9 prósenta vexti á hverju ári, en frá árinu 2021 hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um 4,1 prósent. Sögulega mannfjöldaþróun í sveitarfélaginu ásamt þeim mannfjöldaspám sem sveitarfélagið hefur notað í húsnæðisáætlunum sínum má sjá á mynd hér að neðan.
Íbúðauppbygging í takt við fólksfjölgun, en gæti hökt að öðru óbreyttu
Sveitarfélagið áætlar nú að þörf sé fyrir tæpum 190 íbúðum á ári, 942 íbúðum næstu 5 ár og 2.143 íbúðir næstu 10 ár. Líkt og sést á myndinni hér að neðan er lítill munur á árlegri íbúðaþörf í nýrri húsnæðisáætlun sveitarfélagsins og í húsnæðisáætlun þess frá síðasta ári. Uppsöfnuð íbúðaþörf hefur heldur ekki aukist á milli talninga, sem bendir til þess að íbúðauppbygging í sveitarfélaginu hafi verið í takt við fólksfjölgun.
HMS framkvæmdi síðast íbúðatalningu í sveitarfélaginu Árborg í september 2023, en þá voru 586 íbúðir í byggingu. Þetta var 12 prósenta fjölgun frá talningu HMS í mars sama ár þar sem taldar voru 527 íbúðir í byggingu.
Líkt og sjá má á mynd hér að neðan voru flestar íbúðir í byggingu í síðustu talningu HMS á framvindustigum 3 og 4. Íbúðir á fyrstu framvindustigum voru hins vegar mun færri. Að öðru óbreyttu gæti því orðið hökt í framboði íbúða í sveitarfélaginu innan tveggja ára þar sem fáar nýbyggingar gætu komið inn á markað.
Lóðir fyrir yfir 300 íbúðir í ár
Markmið sveitarfélagsins í lóðamálum er að fjölbreytt lóðaúrval sé til staðar sem annar eftirspurn. Að íbúðarbyggð sé í góðum tengslum við atvinnu, þjónustu, útivistarsvæði og náttúru. Leitast skal við að þétta byggð og byggja upp á auðum lóðum.
Sveitarfélagið Árborg hefur nú skipulagt lóðir fyrir 3.290 íbúðir. Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að 2.289 íbúðir til viðbótar við þær lóðir sem hafa nú þegar samþykkt deiliskipulag. Myndin hér að neðan sýnir áætlað lóðaframboð í sveitarfélaginu til ársins 2033.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS