22. nóvember 2024
22. janúar 2024
4,7 milljörðum úthlutað í stofnframlög fyrir 400 nýjar íbúðir
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Alls var 4,7 milljörðum króna úthlutað í stofnframlög frá ríkinu í fyrra til 37 verkefna til uppbyggingar 400 nýrra íbúða í almenna íbúðakerfinu.
- Stærstur hluti íbúðanna verður á höfuðborgarsvæðinu en úthlutað var til íbúða í öllum landshlutum.
- Ríkisstjórnin hyggst tvöfalda fjölda íbúða fyrir tekju- og eignaminni heimili í ár.
HMS tilkynnir úthlutun stofnframlaga fyrir árið 2023, en hún nam rúmlega 4,7 milljörðum króna og mun nýtast til uppbyggingar samtals 400 nýrra íbúða fyrir tekju- og eignaminni heimili í 18 sveitarfélögum.
37 verkefni samþykkt fyrir 22,4 milljarða króna
Flestar íbúðirnar sem samþykktar voru árið 2023 verða staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og þá helst í Reykjavík. Í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins verða flestar íbúðir í Reykjanesbæ, á Akureyri og í Fjarðabyggð. Á mynd hér að neðan má sjá skiptingu íbúða sem fengu úthlutað stofnframlögum 2023 eftir landshlutum.
Alls voru 37 verkefni samþykkt, en áætluð heildarfjárfesting í verkefnunum er um 22,4 milljarðar króna. Stofnframlög sveitarfélaga í verkefnunum verða um 2,6 milljarðar.
Meðal verkefnanna er 21 ný íbúð fyrir fatlað fólk sem verða til á næstu misserum fyrir tilstuðlan stofnframlaga frá ríki og sveitarfélagi.
Stefnt að úthlutun stofnframlaga til 600 íbúða í ár
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti stórfellda uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni á fundi hjá HMS um mitt síðasta ár. Ráðherra upplýsti þar að samtals væri stefnt að því að byggja 2.800 íbúðir fyrir þennan hóp á árunum 2023-2025 í stað 1.250 íbúða sem áður var áætlað.
Þetta er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu en stjórnvöld hafa ákveðið að tvöfalda framlög til stofnframlaga til leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána til íbúðarkaupa. Fjármögnun er tryggð með svigrúmi í fjármálaáætlun og hliðrun annarra verkefna.
Um stofnframlög
Stofnframlög eru stuðningur í formi eigin fjár sem veitt eru til uppbyggingar á leigubúðum fyrir tekjuminni heimili innan almenna íbúðakerfisins til að auka húsnæðisöryggi leigjenda og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu eða að jafnaði ekki umfram fjórung tekna. Stofnframlögin sem eru veitt til bæði byggingar og kaupa á íbúðum eru veitt annars vegar fyrir hönd ríkisins í gegnum HMS og hins vegar frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem íbúðirnar koma til með að vera staðsettar í.
Stofnframlag ríkisins er 18% af stofnkostnaði íbúðanna og framlag sveitarfélags er 12%. Ríki er heimilt er að veita allt að 4% viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga, íbúðarhúsnæðis ætlað námsmönnum eða öryrkjum. Einnig er heimilt að veita sérstakt byggðaframlag vegna byggingar almennra íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki.
24 milljörðum verið úthlutað til uppbyggingar á nærri 3.500 íbúðum
Frá því að reglur um stofnframlag tóku gildi á seinni hluta árs 2016 hefur HMS (áður búðalánasjóður) úthlutað stofnframlögum til byggingar eða kaupa á samtals 3.486 íbúðum um allt land. Heildarfjárhæð stofnframlaga ríkisins eru um 24 milljarðar króna og heildarfjárfesting í verkefnunum um 125 milljarðar.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS