Áætlun eignamarka

Áætlun eignamarka

Áætlun eignamarka

Áætlun eignamarka

Um áætl­un eigna­marka

Um áætl­un eigna­marka

Markmið verkefnisins er að ná fram heildstæðri mynd af eignarhaldi fasteigna á Íslandi og gera afmarkanir aðgengilegar í vefsjá landeignaskrár. Með því er hægt að styðja við stefnumörkun og stjórnsýslu er varðar eignarhald lands á Íslandi. 

Samkvæmt lögum bera landeigendur sjálfir ábyrgð á að gera merki sín skýr. Merki teljast skýr séu þau hnitsett með lögformlegum hætti eða óumdeild og skýr frá náttúrunnar hendi.

Í dreifbýli hafa margir jarðir ekki verið kortlagðar. Eignarhald og mörk fasteigna geta þá verið háð nokkurri óvissu sem getur skapað óvissu við eignaumsýslu, skipulagsvinnu o.m.fl.

Markmiðið með áætlun eignamarka er að draga úr þessari óvissu en jafnframt draga fram og gera sýnileg þau svæði þar sem eignarhald lands er háð óvissu eða þar sem deilur eru um landsvæði. 

Áætluð eignamörk eru til hagsbóta fyrir landeigendur en hafa jafnframt samfélagslegan ávinning. Með verkefninu um áætlun eignamarka er HMS að: 

  • Áætla áður ókortlögð landamerki í landeignaskrá og ná þannig fram bættri heildarsýn yfir eignarhald lands á íslandi.
  • Auka og auðvelda aðgengi að upplýsingum um afmarkanir lands og lóða til hagsbóta fyrir landeigendur og aðra sem þurfa á upplýsingum að halda. Auknar upplýsingar geta aukið verðmæti lands, komið að notum við kaup og sölu, skipulag fjallskila, arðgreiðslu vegna hlunninda, veiði og svo framvegis.
  • Auðvelda stjórnvöldum og öðrum að framfylgja lögum og taka upplýstar ákvarðanir við gerð skipulags- og framkvæmdaáætlana.

Þar sem eignarhald lands er óljóst eða þar sem deilur eru um merki, munu áætluð merki einfaldlega sýna óvissuna. HMS mun því ekki leysa úr landamerkjadeilum. Í þeim tilfellum þar sem heimildir eru ekki skýrar um legu merkja milli jarða mun HMS merkja svæðið sem óvisst eignarhald. Vonir standa til að með athugasemdum landeigenda aukist gæði áætlaðra eignamarka.

Áætlun eignamarka hefur ekki áhrif á tilvist eða efni eignarréttinda jarðeigenda. Nánar um lagaheimild HMS til að áætla eignamörk í 3. mgr., 3. gr. a. laga um skráningu, merki og mat fasteigna nr. 6/2001.

Gögn að baki áætl­aðra landa­merkja

Við áætlun eignamarka er stuðst við margskonar heimildir. Upplýsingar eru teknar saman fyrir hverja jörð og eignamörk jarðar áætluð á grundvelli þeirra. Breytilegt er eftir svæðum og einstaka jörðum hvaða heimildir eru fyrir hendi. Gögnin sem lögð eru til grundvallar eru:

  • Landamerkjalýsingar á Þjóðskjalasafni Íslands
  • Þinglýst skjöl (landamerkjayfirlýsingar, afsöl og fleira)
  • Mæli- og lóðarblöð frá sveitarfélögum
  • Upplýsingar úr Nýbýlaskrá Landnáms ríkisins á Þjóðskjalasafni Íslands
  • Ýmis önnur skjöl í vörslu HMS

Til stuðnings eru almenn óþinglýst gögn eins og:

  • Örnefnavefsjá Náttúrufræðistofnunar
  • Örnefnasafn stofnunar Árnastofnunar Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Stafrænar upplýsingar um legu ræktaðs lands (túnkort LBHÍ)
  • Hæðarlíkan og vatnafarsupplýsingar frá Náttúrfræðistofnun
  • Loftmyndir í hágæðaupplausn frá Loftmyndum ehf.

 

Áætl­uð land­stærð

Út frá staðsetningu áætlaðra merkja er hægt að finna út áætlaða stærð landeignar. Áætluð stærð er samanlögð mæld stærð allra séreignar- og sameignarskika jarðar að frádreginni landstærð annarra skráðra fasteigna innan merkja jarðar.

Skráð landstærð jarða breytist ekki í fasteignaskrá út frá áætluðum eignamörkum. Til að breyta skráðri stærð í fasteignaskrá þarf merkjalýsandi að fullnaðarskrá merki landeignar með gerð merkjalýsingar. Hér má finna lista yfir merkjalýsendur

 

Kostn­að­ur

Áætlun á merkjum jarða er eigendum að kostnaðarlausu. Ætli eigandi að láta gera merkjalýsingu fyrir eign sína, er það utan þessa verkefnis og fellur sá kostnaður á eiganda.

Fer­ill verk­efn­is

Und­an­skil­ið verk­efn­inu

  • Verkefnið gengur ekki út á gerð nýrra skjala eða samninga fyrir hönd eigenda.
  • Fullnaðarskráð og hnitsett merki jarðar ganga framar áætlun eignamarka. Jarðir með fullnaðarskráð merki falla því utan marka verkefnisins.
  • Skráningu fasteignar er ekki breytt við áætlun eignamarka, sérstaklega ber að nefna að skráðri landstærð eignarinnar er ekki breytt. 
  • Óbein eignarréttindi líkt og ítök.
  • Fasteignir af gerðinni lóð eru undanskildar í fyrstu atrennu. 
  • Áætlun eignamarka tekur ekki á landamerkjum út í vötn, ár og sjó. Né réttindum sem þeim fylgja.

Fulln­að­ar­skrán­ing  

Fullnaðarskráning er skráning í fasteignaskrá sem uppfyllir lögbundnar kröfur sem gerðar eru til skráningarinnar á þeim tíma sem skráning á sér stað. Fullnaðarskráning byggist á heimildum, þinglýstum eða staðfestum af sveitarfélagi og sýnir hnitsetta afmörkun fasteignarinnar í heild,  þar með taldir allir skikar í séreign og sameign.

Lög og reglu­gerð­ir um áætl­un eigna­marka

6/2001: Lög um skráningu, merki og mat fasteigna 

134/2024 – Reglugerð um áætlun eignamarka

160/2024 – Reglugerð um merki fasteigna