Byggingarvörur
Byggingarvörur
Byggingarvörur
Byggingarvörur
Almennar upplýsingar um byggingarvörur
Almennar upplýsingar um byggingarvörur
Byggingarvörur þurfa að henta til áformaðra nota og standast þær kröfur sem til þeirra eru gerðar í mannvirkjagerð. Því er mikilvægt að upplýsingar um eiginleika byggingarvöru, sem varða grunnkröfur um mannvirki, séu aðgengilegar og áreiðanlegar og er það á ábyrgð framleiðenda að láta meta þessa eiginleika með prófunum og/eða útreikningum og setja fram í fylgiskjölum vörunnar.
Hönnuðir mannvirkja eiga að setja fram kröfur til þeirra eiginleika byggingarvara sem eru mikilvægir, með tilliti til grunnkrafna um mannvirki, en þá getur notandi, t.d. iðnmeistari, metið nothæfi byggingarvara í viðkomandi mannvirkjagerð.
Byggingarvara: allar vörur eða samstæður sem eru framleiddar og settar á markað til varanlegrar ísetningar í mannvirki eða hluta þeirra og sem nothæfi þeirra hefur áhrif á nothæfi mannvirkjanna að því er varðar grunnkröfur um mannvirkið. (lög um byggingarvörur nr. 114/2014).
- Mannvirki verða, í heild og einstakir hlutar þess (þar með talið byggingarvörur), að henta til áformaðra nota og verða því að uppfylla ákveðnar grunnkröfur. Grunnkröfurnar eru skilgreindar í I. viðauka Evrópureglugerðar nr. 305/2011 og eru eftirfarandi:
1. Burðarþol og stöðugleiki
Mannvirki skulu hönnuð og byggð á þann veg að álagið sem hætt er við að verki á þau meðan á framkvæmdum stendur og við notkun leiði ekki til:
a) að allt mannvirkið eða hluti þess hrynji,
b) mikilla formbreytinga að því marki að ekki verði við unað,
c) skemmda á öðrum hlutum mannvirkisins, lögnum eða föstum búnaði vegna mikilla formbreytinga á burðarvirki,
d) skemmda vegna ytri áhrifa þar sem þær eru óeðlilega miklar miðað við upprunalega orsök þeirra.
2. Varnir gegn eldsvoða
Mannvirki skulu hönnuð og byggð þannig að ef brýst út eldur:
a) megi gera ráð fyrir að burðarþol mannvirkisins haldist í tiltekinn tíma,
b) skuli eldsupptök og útbreiðsla elds og reyks inni í mannvirkinu takmörkuð,
c) skuli útbreiðsla elds til mannvirkja í grenndinni takmörkuð,
d) geti íbúar yfirgefið mannvirkið eða bjargast eftir öðrum leiðum,
e) sé öryggi björgunarliðs haft í huga.
3. Hollustuhættir, heilbrigði og umhverfi
Mannvirki skulu vera hönnuð og byggð á þann hátt að á öllum vistferli sínum sé hollustuháttum eða heilbrigði og öryggi starfsmanna, íbúa eða nágranna ekki stefnt í hættu og á þann hátt að á öllum vistferli sínum hafi þau ekki óhóflega mikil áhrif á umhverfisgæði eða á loftslagið meðan á framkvæmdum stendur, við notkun og niðurrif, einkum vegna einhvers af eftirfarandi:
a) uppgufunar eitraðra lofttegunda,
b) losunar hættulegra efna, rokgjarnra, lífrænna efnasambanda, gróðurhúsalofttegunda eða hættulegra agna út í loftið innanhúss eða utanhúss,
c) hættulegrar geislunar,
d) losunar hættulegra efna út í grunnvatn, sjó, yfirborðsvatn eða jarðveg,
e) losunar hættulegra efna út í drykkjarvatn eða efna sem hafa önnur neikvæð áhrif á drykkjarvatn,
f) lélegrar fráveitu skólps, losunar útblásturs eða rangrar förgunar fasts eða fljótandi úrgangs,
g) rakamyndunar í hlutum mannvirkja eða á yfirborði innandyra.
4. Öryggi við notkun og aðgengi
Mannvirki skulu hönnuð og byggð á þann hátt að ekki skapist óviðunandi slysahætta eða hætta á tjóni við rekstur eða notkun þeirra, svo sem að menn renni til, detti, rekist á, brenni sig, fái raflost eða slasist af völdum sprenginga og vegna innbrota. Einkum skulu mannvirki hönnuð og byggð þannig að tekið sé tillit til aðgengis og notkunar fatlaðra einstaklinga.
5. Hávaðavarnir
Mannvirki skulu hönnuð og byggð á þann hátt að hávaði, sem fólk á staðnum eða í næsta nágrenni skynjar, sé ekki meiri en svo að viðkomandi bíði ekki heilsutjón og geti sofið, hvílt sig og unnið við viðunandi skilyrði.
6. Orkusparnaður og hitaeinangrun
Hita-, kæli-, lýsingar- og loftræsikerfi mannvirkja skulu hönnuð og byggð þannig að nauðsynleg orkunotkun sé sem minnst þegar tillit er tekið til íbúa þeirra og veðurfarsskilyrða á staðnum. Mannvirki skulu einnig vera orkunýtin, þ.e. nota eins litla orku og mögulegt er við mannvirkjagerð og niðurrif.
7. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda
Mannvirki skulu hönnuð, byggð og rifin niður með þeim hætti að nýting náttúruauðlinda sé sjálfbær og einkum til að tryggja:
a) endurnotkun eða endurvinnanleika mannvirkja, byggingarefna og byggingarhluta eftir niðurrif,
b) endingu mannvirkja,
c) notkun umhverfisvænna hráefna og endurunninna efna í mannvirkjunum.
Eiginleikar byggingarvöru segja til um nothæfi hennar í mannvirkjagerð.
Framleiðandi byggingarvöru tekur ákvörðun um til hvaða nota hann vilji markaðssetja vöru sína og út frá skilgreindum áformuðum notum metur hann eða lætur meta mismunandi eiginleika byggingarvörunnar. Framleiðandi getur tekið ákvörðun um að markaðssetja byggingarvöru sína til fleiri áformaðra nota og getur það þá haft í för með sér að nauðsynlegt sé að meta fleiri eiginleika vörunnar. Að sama skapi má segja að séu einungis fáir eiginleikar metnir fyrir byggingarvöru getur það takmarkað nothæfi hennar í mannvirkjagerð.
Með mikilvægum eiginleikum er átt við þá eiginleika byggingarvörunnar sem tengjast grunnkröfum um mannvirki.
Með lögum um byggingarvörur nr. 114/2014 og Evrópureglugerð nr. 305/2011 sem birt er sem fylgiskjal með lögunum er framleiðendum og seljendum byggingarvöru gert að staðfesta og lýsa eiginleikum vöru á ákveðinn samræmdan hátt. Þetta á við þegar notkun vörunnar í mannvirki varðar grunnkröfu sbr. I. viðauka laganna.
Fjallað er um þær reglur sem gilda um markaðssetningu byggingarvara í ofangreindum lögum en þær skiptast í raun í tvennt eftir því hvort um sé að ræða:
- CE-merkingarskyldar vörur (sem falla undir samhæfða staðla)
- Vörur sem ekki er gerð krafa um að CE-merkja (sem ekki falla undir samhæfða staðla)
Grunnhugmyndin er sú sama fyrir báða vöruflokka hér að ofan, þ.e.a.s. framleiðandi skal ákveða til hvaða nota byggingarvara hans er ætluð og láta meta mikilvæga eiginleika hennar (með prófunum eða útreikningum) með tilliti til grunnkrafna um mannvirki.
- Fyrir vörur sem falla undir kröfu um CE-merkingu eru mikilvægir eiginleikar skilgreindir í samhæfðum staðli fyrir viðkomandi vöru.
- Fyrir vörur sem ekki falla undir kröfu um CE-merkingu eru eiginleikarnir sem taka þarf afstöðu til taldir upp í 2. mgr. 10. gr. laga um byggingarvörur.
Byggingarvörur til notkunar í eða við mannvirkjagerð skulu uppfylla skilyrði
- Laga um byggingarvörur nr. 114/2014 (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2014114.html)
- Byggingarreglugerðar nr. 112/2012 (https://www.byggingarreglugerd.is/)
Auk ofangreindra laga og reglugerðar gilda um byggingarvörur eftir atvikum:
- Lög um timbur og timburvörur nr. 95/2016 (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2016095.html)
- Almennir staðlar og samhæfðir staðlar (https://samhaefdirstadlar.is/)