Byggingarvörur
Byggingarvörur
Byggingarvörur
Byggingarvörur
Aðrar byggingarvörur (ekki CE-merktar)
Aðrar byggingarvörur (ekki CE-merktar)
Ef ekki er til samhæfður staðall um byggingarvöru er óheimilt að CE-merkja vöruna (þó er það heimilt ef til er evrópskt tæknimat fyrir vöruna). Gerð er krafa um að mikilvægir eiginleikar vörunnar séu metnir og settir fram í yfirlýsingu um nothæfi.
Um markaðssetningu slíkra vara gildir III. kafli laga um byggingarvörur nr. 114/2014. Leiðbeiningarnar hér að neðan snúa að því regluverki.
Ef ekki fylgir yfirlýsing um nothæfi er byggingarvaran ólögleg á markaði.
Framleiðandi byggingarvöru skilgreinir áformuð not vöru sinnar. Eins og fyrir CE-merkingarskyldar byggingarvörur skal framleiðandi láta meta mikilvæga eiginleika vöru sinnar er varða grunnkröfur um mannvirki.
Framleiðandi skal afla staðfestingar óháðs aðila á nothæfi byggingarvöru með tilliti til eftirfarandi eiginleika:
- Burðarþols og styrks efnis.
- Einangrunargildis.
- Hljóðeinangrunar og annarra þátta er varða hljóðvist.
- Loftþéttleika.
- Slagregnsþéttleika.
- Hitaþols.
- Frostþols.
- Efnaþols.
- Gufuþéttleika.
- Að varan spilli ekki gæðum neysluvatns (t.d. með útfellingu þungmálma).
- Uppgufunar/losunar mengandi efna.
- Innihalds efna sem falla undir 57. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (REACH), sbr. reglugerð nr. 750/2008 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni („REACH“).
Framleiðandi setur þá mikilvægu eiginleika, sem hann hefur metið eða látið meta, fram í yfirlýsingu um nothæfi sem fylgir byggingarvörunni. Yfirlýsing um nothæfi segir því til um nothæfi viðkomandi byggingarvöru í mannvirkjagerð. Kjósi framleiðandi að láta ekki meta einhvern ofangreindra eiginleika sem þó hefur áhrif á grunnkröfur um mannvirki getur það haft í för með sér að byggingarvara hans sé ekki nothæf í einhverjum tilfellum.
Yfirlýsing um nothæfi skal fylgja öllum byggingarvörum. Í yfirlýsingu um nothæfi koma fram nauðsynlegar upplýsingar m.a. varðandi áformuð not vörunnar og þá mikilvægu eiginleika sem framleiðandi hefur látið meta. Yfirlýsingunni er þannig ætlað að lýsa helstu eiginleikum vöru svo að neytanda sé ljóst til hvaða nota varan hentar. Yfirlýsingin má vera afhent á pappír eða með rafrænum hætti.
Aðrar upplýsingar svo sem upplýsingar um framleiðanda, lýsing og auðkenni vöru ásamt notkunarsviði, skilmálar er varða notkun vörunnar o.fl. eiga líka að koma fram á yfirlýsingu um nothæfi. Frekari upplýsingar um yfirlýsingu um nothæfi má finna í 13. gr. laga um byggingarvörur nr. 114/2014 (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2014114.html).
Fylgi byggingarvöru ekki yfirlýsing um nothæfi er markaðssetning hennar óheimil.
Nauðsynlegt er að upplýsingar um áformuð not og mikilvæga eiginleika byggingarvöru komi fram á fylgiskjölum og að þær séu aðgengilegar neytendum. Gögn sem fylgja skulu byggingarvörum sem ekki er gerð krafa um CE-merkingu eru:
- Yfirlýsing um nothæfi en hún er nokkurs konar samantekt á upplýsingum um byggingarvöru, hefur meðal annars að geyma mikilvæga eiginleika vörunnar
- Leiðbeiningar um notkun og upplýsingar um öryggi en það eykur líkur á réttri notkun vörunnar sem hefur í för með sér auknar líkur á að eiginleikar vörunnar náist og dregur úr slysahættu
- REACH-upplýsingar (ef varan er þess eðlis)
Byggingarvara þarf að henta til fyrirhugaðra nota.
Neytendur verða því að skoða yfirlýsinguna um nothæfi til þess að fullvissa sig um að varan hafi þá eiginleika að hún henti til notkunar við fyrirhugaðar aðstæður. Hönnuður mannvirkis skilgreinir þá eiginleika. Um framsetningu krafna til byggingarvöru í hönnunargögnum er t.d. fjallað í byggingarreglugerð.
Sjá nánar lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingareglugerð nr. 112/2012.
Brýnt er að upplýsingar um mikilvæga eiginleika byggingarvöru séu aðgengilegar og fylgi vörunni en það eykur líkur á að valin sé byggingarvara sem sannarlega uppfyllir þær kröfur sem til hennar eru gerðar.
Allir fagaðilar sem koma að markaðssetningu byggingarvöru skulu tryggja að rétt gögn fylgi henni.
Framleiðendur, innflytjendur og dreifendur sem markaðssetja byggingarvöru sem fellur undir III kafla laga um byggingarvörur nr. 114/2014 (þ.e. þegar ekki er krafist CE-merkingar), bera allir á sinn hátt ábyrgð á að því að vörunni fylgi fullnægjandi yfirlýsing nothæfis í samræmi við ákvæði III. kafla laganna.
Slík yfirlýsing nothæfis skal vera á íslensku, sbr. 13. gr. laga um byggingarvörur og skal hún fylgja vöru þegar vara er markaðssett með tilvísun til þess að fyrirhuguð notkun vörunnar varði einhvern þeirra eiginleika sem upp eru taldir í 10. gr. laga um byggingarvörur.
Ákvæði um ábyrgð og skyldur þeirra sem ákvarða um notkun/velja byggingarvöru til mannvirkjagerðar, s.s. eigenda, hönnuða, iðnmeistara eða byggingarstjóra koma fram í lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þessum aðilum ber ávallt að tryggja að valdar vörur uppfylli skilyrði laga um byggingarvörur nr. 114/2014.
Um notkun byggingarvöru í mannvirki gildir:
- Hönnuðir sem skrifa verklýsingar og vinna uppdrætti þurfa að lýsa eiginleikum vöru á þann hátt sem lög um byggingarvörur og staðlar eða önnur tæknigögn gera ráð fyrir.
- Eigandi mannvirkis, iðnmeistari og byggingarstjóri eiga að geta staðfest á fullnægjandi hátt að þær byggingarvörur sem þeir nota til mannvirkjagerðar uppfylli kröfur hönnunargagna og að þær séu CE-merktar eða eiginleiki staðfestur á annan hátt þegar við á. Þeir verða að geta lagt fram viðeigandi gögn sem staðfesta slíkt. Þetta eru eftir atvikum yfirlýsing framleiðanda um nothæfi vegna CE-merktrar vöru eða samsvarandi yfirlýsing, sbr. 13. gr. laganna, sé um að ræða vöru sem fellur undir III. hluta laga um byggingarvörur nr. 114/2014.
Sjá nánar:
Lög um mannvirki nr. 160/2010, 16. tölulið 3. gr., 15. gr., 23. gr., 5. mgr. 29. gr. og 2. mgr. 32. gr.
Byggingarreglugerð nr. 112/2012, 4.5.1. gr. og 4.5.2. gr.