Mark­mið og að­drag­andi út­gáfa veg­vís­is

Mark­mið og að­drag­andi út­gáfa veg­vís­is

Byggingargallar eru of algengir á Íslandi og hafa í för með sér gífurlegan kostnað fyrir samfélagið, bæði beinan en einnig óbeinan kostnað sem erfiðara er að meta.

Mat HMS bendir til þess að árlegur kostnaður vegna galla í íbúðarhúsnæði geti numið a.m.k. 15 milljörðum króna. Sé litið til alls húsnæðis er þessi upphæð talin geta numið allt að 25 milljörðum króna í beinu tapi ár hvert vegna ótímabærra viðgerða og afleiddrar fjárhagslegrar byrði.

Helstu ágallar núverandi kerfis skv. vegísinum eru:

  1. Ekkert raunverulegt eftirlit á verkstað af óháðum aðila og hönnunareftirlit takmarkað.
  2. Íþyngjandi eftirlitskerfi án sjáanlegs ávinnings og óskilvirkni stjórnsýslu.
  3. Ekki nægjanleg neytendavernd.
  4. Ósamræmd túlkun byggingareglugerðar og 62 ólík umsóknarferli byggingarleyfis.
  5. Óljóst hver ber ábyrgð á byggingargöllum.

Ábyrgðarkeðjan í mannvirkjagerð hefur að vissu leyti verið óljós. Ytra eftirlit er takmarkað og í mörgum tilvikum í höndum aðila sem tengjast framkvæmdum hverju sinn með beinum hætti. Fyrirkomulagið skapar augljósa hættu á hagsmunaárekstrum og getur dregið úr því að gallar og frávik séu greind snemma.

  • Með eftirliti hönnunar- og byggingastjóra er innra eftirlit í byggingariðnaði í dag í raun tvöfalt en raunverulegt óháð eftirlit lítið sem ekkert.

Neyt­enda­vernd

Tryggingaumhverfið á byggingamarkaði hefur sömuleiðis reynst veikt. Þegar upp koma frávik í nýbyggingum er algengt að sönnunarbyrði lendi á neytendum sem þurfa þá að verja bæði tíma og fjármunum í að reyna að sækja rétt sinn. Fjárhæðir starfsábyrgðartrygginga hönnuða og byggingarstjóra eru gjarnan of lágar miðað við umfang framkvæmda og fara bótagreiðslur því oft að verulegu leyti í lögfræði- og ráðgjafakostnað en duga ekki til að lagfæra þá galla sem málin snúast um.

Með útgáfu vegvísis að breyttu byggingareftirliti er ætlun HMS að bregðast við þessum veikleikum með því að móta nýtt fyrirkomulag byggingareftirlits og tryggja neytendavernd. Tillögurnar miða að því að færa ábyrgð til þeirra sem hana eiga að bera, þ.e. verkeigendur, hönnuðir og framkvæmdaðilar, og tryggja að neytendur sitji ekki uppi með tjón vegna byggingargalla.

Með áhættumiðuðu óháðu ytra eftirliti, skýrari ábyrgðarkeðju og lögbundinni byggingargallatryggingu er ætlunin að draga úr byggingargöllum og lækka samfélagslegan kostnað vegna þeirra, verðlauna verkeigendur og fagaðila sem skila góðum mannvirkjum og efla traust almennings á byggingarmarkaði.