6. mars 2024

Yfir þúsund leiguíbúðir án reykskynjara

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Töluverður munur er á brunavörnum heimila á leigumarkaði og annarra heimila á húsnæðismarkaði
  • Um 5 prósent heimila á leigumarkaði eru án reykskynjara, sem jafngildir yfir þúsund íbúðum samkvæmt mati HMS
  • Fjöldi heimila hefur athugað brunavarnir sínar í kjölfar forvarnarverkefna á vegum HMS

Íbúðir sem nýttar eru til útleigu eru tæplega tvöfalt líklegri en íbúðir sem nýttar eru til eigin búsetu að vera án reykskynjara, en enginn reykskynjari er til staðar í 4,9 prósent íbúða á leigumarkaði, sem eru yfir þúsund talsins. Þetta kemur fram í árlegri skoðanakönnun sem HMS framkvæmir um brunavarnir á heimilum landsins.

Skoðanakönnunin, sem hefur verið framkvæmd frá árinu 2006 og HMS vinnur nú í samvinnu við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sýnir að almennt ástand brunavarna á heimilum er gott. Hins vegar má sjá mikinn mun á brunavörnum íbúða sem nýttar eru til útleigu og íbúða sem nýttar eru til eigin búsetu og virðist brunavörnum á leigumarkaði vera ábótavant.

Samkvæmt síðustu skoðanakönnun sem framkvæmd var í janúar 2024 eru 97 prósent heimila með einn eða fleiri uppsetta reykskynjara, á meðan 77 prósent þeirra eru með slökkvitæki og 75 prósent eru með þekkta flóttaáætlun. Niðurstöðurnar má sjá á mynd hér að neðan.

Ef einungis er litið til leigumarkaðarins er staðan hins vegar verri, en þar er 95 prósent heimila með reykskynjara, á meðan 69 prósent þeirra eru með slökkvitæki og 76 prósent  eru með þekkta flóttaáætlun.

Alls eru 4,9 prósent íbúða sem nýttar eru til útleigu án reykskynjara, samanborið við 2,9 prósent íbúða sem nýttar eru til eigin búsetu. Þetta jafngildir yfir þúsund íbúðum á leigumarkaði sem eru án reykskynjara, ef miðað er við svarhlutfall leigjenda í skoðanakönnuninni samanborið við fjölda íbúða samkvæmt fasteignaskrá.

Samkvæmt húsaleigulögum ber leigusala að sjá til þess að leiguhúsnæði fullnægi kröfum um brunavarnir og honum ber að upplýsa leigjanda um brunavarnir húsnæðisins sem er til útleigu. Mikilvægt er að leigjendur kynni sér brunavarnir húsnæðisins sem þeir eru að leigja, hvort það sé reykskynjari og slökkvitæki til staðar og hvort það séu tvær flóttaleiðir út úr húsnæðinu.

For­varn­ar­verk­efni hafa áhrif á bruna­varn­ar­vit­und heim­ila

HMS og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna taka höndum saman þann 1. desember ár hvert og ýta úr vör árlegu forvarnarátaki á degi reykskynjarans. Þeir svarendur sem sáu átakið sögðu það hafða þau áhrif að viðkomandi skoðaði brunavarnir á sínu heimili í kjölfarið.

HMS sinnir öflugu fræðslu og forvarnarstarfi á sviði brunavarna, inn á vefnum Vertu eldklár má nálgast  forvarnar- og fræðsluefni varðandi brunavarnir heimilisins https://vertueldklar.is/

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS