4. september 2024
9. ágúst 2024
Yfir 100 nýjar lóðir staðfestar í júlí
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Alls voru 137 nýjar lóðir staðfestar í fasteignaskrá í júlí um land allt, þar af 61 íbúðarhúsalóð, 23 sumarbústaðalönd og 35 viðskipta og þjónustulóðir
- Fimm nýjar hleðslustöðvalóðir voru staðfestar í Fjarðabyggð
- Nokkur vegsvæði voru staðfest í Dalabyggð og Reykhólahrepp
Í júlí voru 137 nýjar lóðir um allt land staðfestar í fasteignaskrá og fjölgar þeim um rúmlega 61 frá því í júní þrátt fyrir að hægst hafi á afhendingu á nýjum lóðum til fasteignaskráningarteymis HMS sökum sumarleyfa. Að þessu sinni voru flestar nýjar lóðir íbúðarhúsalóðir eða alls 61 lóð. Þá voru 35 lóðir viðskipta- og þjónustulóðir og 23 lóðir voru sumarbústaðalönd.
Flestar nýjar íbúðarhúsalóðir voru staðfestar í Sveitarfélaginu Árborg eða alls 42 lóðir. Ellefu lóðir voru svo staðfestar í Grímsnes- og Grafningshreppi en hingað til hafði aðeins ein íbúðarhúsalóð verið staðfest í því sveitarfélagi. Það sem af er ári hafa flestar nýjar lóðir í Grímsnes- og Grafningshreppi verið sumarhúsalóðir enda um að ræða stærsta sumarhúsasvæði landsins eins og fram kom í frétt HMS frá því í fyrrasumar.
Í Fjarðabyggð á Austfjörðum voru stofnaðar fimm nýjar lóðir fyrir hleðslustöðvar í helstu byggðarkjörnum sveitarfélagsins í júlí. Óvíst er hvenær hleðslustöðvarnar verða komnar í gagnið en uppbygging á sér stað þar samhliða stækkun og færslu á tjaldsvæðum sveitarfélagsins.
Þá voru nokkur vegsvæði í Reykhólahreppi og Dalabyggð staðfest í fasteignaskrá í júlí en samkvæmt núverandi vegalögum þarf alltaf að stofna fasteign í kringum ný vegsvæði. Vegsvæði og vegamannvirki flokkast þó ekki undir mannvirki samkvæmt mannvirkjalögum og vegsvæði fá ekki fasteignamat.
*Þessi frétt var uppfærð 3. september 2024
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS