14. nóvember 2024
14. nóvember 2024
Vöruvaktin: Níu eftirlitsstofnanir sameinast á einum vef
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
HMS ásamt átta öðrum eftirlitsstofnunum hafa opnað nýjan vef sem nýtist neytendum til að varast hættulegar og gallaðar vörur. Vefurinn nefnist Vöruvaktin, og þar er að finna tilkynningar og upplýsingar um hættulegar vörur sem falla undir vöruflokka á borð við raftæki, leikföng og öryggisbúnað barna.
Stofnanir sameinast um einn vef
Eftirlit með því að vörur uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra er í höndum níu ólíkra eftirlitsstofnana. Hver stofnun er með sérþekkingu á sínu sviði. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) ber þá ábyrgð á samræmingu alls markaðseftirlits í landinu í samvinnu við hinar stofnanirnar. Á grundvelli þessarar samvinnu hafa eftirlitsstofnanirnar níu nú sameinast um einn vettvang til að miðla til neytenda upplýsingum um öryggi og gera þeim betur kleift að sneiða hjá hættulegum vörum. Með tilkomu Vöruvaktarinnar er auðveldara en áður fyrir neytendur að finna allar slíkar upplýsingar á einum stað. Einnig getur almenningur í gegnum Vöruvaktina komið á framfæri eigin ábendingum um hættulegar eða ólöglegar vörur.
Að Vöruvaktinni standa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ÁTVR, Geislavarnir ríkisins, Neytendastofa, Fjarskiptastofa, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun, Lyfjastofnun og Vinnueftirlitið.
TikTok og aðrir samfélagsmiðlar vettvangur umræðu og fræðslu
Regína Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri brunavarna og markaðseftirlits, og Herdís Björk Brynjarsdóttir, teymisstjóri markaðseftirlits, kynntu nýja vefinn fyrir hönd HMS á fundi sem fram fór í höfuðstöðvum stofnunarinnar í morgun. Einnig tók til máls nýr forstjóri Umhverfisstofnunar, Auður Ingólfsdóttir.
Fram kom í máli þeirra að mikilvægt væri að stjórnvöld mæti neytendum þar sem þeir eru með fræðslu og upplýsingagjöf. Nefndi Auður að TikTok hafi til að mynda nýst stofnuninni vel við að ná til fólks og gera það meðvitað um hættuleg efni sem leynst geti í ýmsu sem við notum og neytum.
Regluleg umræða um skaðleg efni í vörum
Talsverð eftirspurn er eftir upplýsingum um skaðleg efni og óáreiðanlega framleiðendur. Reglulega fer fram umræða í Facebook-hópum hér á landi um hættuleg efni í vörum og vörur sem ekki standast ýtrustu kröfur um öryggi. Nærtækt er að nefna stór vefsölutorg utan EES-svæðisins, svo sem Temu og Shein, sem selja föt, leikföng og aðrar vörur beint til neytenda hérlendis.
Vörur sem keyptar eru frá þessum sölutorgum hafa í sumum tilfellum reynst innihalda krabbameinsvaldandi efni. Markmiðið með nýrri síðu er að svara þessari eftirspurn eftir upplýsingum og standa vonir eftirlitsstofnananna níu til þess að fólk nýti sér Vöruvaktina til að kanna öryggi vöru áður en að kaupum kemur.
Vöruvaktina er að finna á www.voruvaktin.is.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS