8. maí 2025
26. janúar 2024
Viðskipti með atvinnuhúsnæði dragast saman um tæpan helming milli ára
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Heildarvelta kaupsamninga með atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um tæplega helming á milli síðasta og þarsíðasta árs. Þetta kemur fram í tímaröðum HMS um þinglýst viðskipti með atvinnuhúsnæði.
Í desember 2023 voru 37 kaupsamningar um atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýstir. Heildarvelta seldra eigna nam 3,8 milljörðum króna sem er verulegur samdráttur frá mánuðinum þar á undan þegar heildarveltan nam 6,8 milljörðum króna.
Utan höfuðborgarsvæðisins voru viðskipti með atvinnuhúsnæði hins vegar á svipuðu róli á milli mánaða. Þar voru alls 52 þinglýstir kaupsamningar um atvinnuhúsnæði í desember og námu heildarviðskiptin rúmlega 2 milljörðum króna, samanborið við 47 kaupsamninga að virði 2,2 milljarða króna í nóvember.
Heildarverðmæti viðskipta með atvinnuhúsnæði nam 55milljörðum króna á höfuðborgarsvæðinu í fyrra, en árið 2022 nam það 102 milljörðum króna. Veltan á þessum viðskiptum hefur því dregist saman um rúm 45 prósent. Meðalfjöldi mánaðarlegra viðskipta með atvinnuhúsnæði hefur einnig dregist saman á höfuðborgarsvæðinu á milli ára, úr 68 á mánuði árið 2022 í 54 á mánuði í fyrra.
Öfuga þróun má þó sjá í viðskiptum um atvinnuhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem heildarvirði þeirra í jókst úr 24,4 milljörðum króna árið 2022 í 26,2 milljarða króna í fyrra. Meðalfjöldi viðskipta var þó svipaður á milli ára, en 42 kaupsamningar voru þinglýstir að meðaltali í hverjum mánuði árið 2023, miðað við 44 kaupsamninga árið 2023.
Uppfært 8. mars 2024. Tölur í fréttinni voru uppfærðar eftir að upp komst um villu í gagnavinnslu með kaupsamninga um atvinnuhúsnæði.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS