31. maí 2022

Brunavarnir í leiguherbergjum fjölbýlishúsa

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Víðsvegar hefur viðgengist leiga á herbergjum í sameignum fjölbýlishúsa, ýmist staðsett í kjöllurum eða risum.

Víðsvegar hefur viðgengist leiga á herbergjum í sameignum fjölbýlishúsa, ýmist staðsett í kjöllurum eða risum. Oft er um að ræða eldri fjölbýlishús, í grónum byggðum höfuðborgarsvæðisins og víðar, sem byggð voru fyrir núverandi kröfur um brunavarnir. Mörg þessara húsa eru í upprunalegu ásigkomulagi og hafa því ekki verið gerðar breytingar á þeim. Eins og að setja eldvarnarhurðir í hverja íbúð eða leiguherbergi og almennt viðhald brunavarna oft ábótavant, svo sem prófun reykskynjara, rafhlöðuskipti og yfirferð slökkvitækja.  

Nýverið varð eldsvoði í fjölbýlishúsi á Miklubraut þar sem eldsupptök áttu sér stað í leiguherbergi í sameign. Herbergið var staðsett í kjallara og fljótt varð stigagangur húsnæðisins mettaður af reyk sem varð til þess að nokkrir íbúanna gengu í gegnum reykjamökkinn á leið sinni út og þurftu í framhaldi aðhlynningu sjúkraflutningamanna og frekari skoðun á bráðamóttöku.  

Eldsvoðinn átti sér stað að morgni til og því margir íbúar þegar komnir á ról, reykskynjarar voru virkir í sameigninni og urðu íbúar því varir við hljóðmerki þeirra fremur fljótt. Reykur hafði ekki borist inn í íbúðir í miklu magni þar sem þær voru reykþéttar. Í þessu tilfelli var því margt sem vann með íbúum húsnæðisins, en ef tímasetningin hefði verið önnur, reykskynjarar í ólagi eða hurðir íbúða óþéttar hefði sviðsmyndin geta verið mun óhugnanlegri. 

Tilgangur brunavarna og brunahólfunar í byggingum er m.a. að hindra útbreiðslu elds og reyks innan húsnæðis þannig að sjálfsbjörgun og skilvirkt slökkvistarf verði mögulegt. Eldvarnarhurðir eru til þess fallnar að hamla útbreiðslu elds og reyks milli rýma og tryggja að flóttaleiðir séu að mestu reykfríar.  

Brunavarnasvið HMS vill í ljósi þessa eldsvoða skora á íbúa, leigusala, leigjendur og húsfélög fjölbýlishúsa, þar sem um álíka leiguherbergi er að ræða, að yfirfara eigin brunavarnir og efla þar sem við á, fjölga og yfirfara reykskynjara, yfirfara slökkvitæki og huga að uppsetningu eldvarnahurða þar sem við á.  

Ófullnægjandi brunavarnir ættu að vera barn síns tíma og berum við öll ábyrgð á að hafa okkar brunavarnir í lagi. 

 

Berum ábyrgð og höfum brunavarnir í lagi. 

Nánari upplýsingar um brunavarnir á heimilum má finna hér.

 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS