10. janúar 2025
10. janúar 2025
Um 1.500 leigusamningar undirritaðir í hverjum mánuði
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Gildum leigusamningum í Leiguskrá fjölgaði um 7 þúsund á árinu 2024
- Um 18 þúsund leigusamningar voru skráðir árið 2024, eða að meðaltali 1.500 á mánuði
- Leiguverðsjá HMS sýnir að markaðsleiga á fermetra lækkar á milli mánaða í desember á höfuðborgarsvæðinu
Alls tóku 1.203 nýir leigusamningar gildi í desember á sama tíma og 967 samningar féllu úr gildi. Þannig fjölgaði gildum samningum um 236 í desember eftir að hafa fjölgað um 546 í nóvember. Flestir samningar sem tóku gildi í desember vörðuðu samninga á höfuðborgarsvæðinu, eða um 797 talsins. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr Leiguskrá nú í upphafi janúarmánaðar.
Um 18 þúsund leigusamningar skráðir í Leiguskrá HMS árið 2024
Alls voru 18.403 leigusamningar skráðir árið 2024 í Leiguskrá HMS. Gildir samningar í upphafi janúarmánaðar eru 24.542, en 70 prósent þeirra vörðuðu íbúðir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu.
Leiguverðsjá sýnir lækkun á milli mánaða í desember
Í leiguverðsjá HMS, sem hægt er að nálgast með því að smella hér, er hægt að skoða leiguverð eftir mánuðum, landshluta, sveitarfélagi, tegund leigusala, herbergjafjölda, stærð og samningsgerð.
Hér að ofan má sjá skjáskot af leiguverðsjánni þar sem fermetraverð 60-90 fermetra íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem leigðar eru út á hagnaðardrifnum leigumarkaði er skoðað á milli mánaða. Samkvæmt leiguverðsjánni lækkaði leiguverð á slíkum íbúðum að meðaltali um 2 prósent á milli nóvember- og desembermánaðar, eða úr 3.903 krónur í 3.824 krónur.
Upplýsingar í Leiguskrá í sífelldri uppfærslu
Hægt er að skrá upplýsingar um leigusamninga afturvirkt í Leiguskrá. Þar af leiðandi er möguleiki á að upplýsingar um verð og fjölda samninga sem taka gildi og falla úr gildi eftir mánuðum taki breytingum yfir tíma. Ekki er því hægt að tryggja fullkomið samræmi í birtingu slíkra upplýsinga frá einum tíma til annars.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS