10. júní 2024

Þensla á byggingarmarkaði árið 2023 var ekki tilkomin vegna íbúðauppbyggingar

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Fjárfesting í íbúðauppbyggingu dróst saman að raunvirði árið 2023, þrátt fyrir að umsvif á byggingarmarkaði hafi aukist á árinu
  • Einungis þriðjungur af fjárfestingum á byggingarmarkaði í fyrra var vegna íbúðauppbyggingar
  • Fjárfestingar í mannvirkjum atvinnuvega jukust um 20 prósent að raunvirði í fyrra

Hagstofa birtir tölur um fjármunamyndun á byggingarmarkaði í þjóðhagsreikningum sínum, en henni má skipta upp í fjármunamyndun fyrir íbúðarhúsnæði, mannvirki atvinnuvega og opinber mannvirki. Myndin hér að neðan sýnir heildarfjárfestingu á byggingarmarkaði á tímabilinu á verðlagi síðasta árs á tímabilinu 2018-2023.

Líkt og sést á myndinni jókst heildarfjárfesting á byggingarmarkaði um fimm prósent í fyrra og nam hún 562 milljörðum króna, þar af voru 196 milljarðar króna í íbúðarhúsnæði, 119 milljarðar króna í opinberum mannvirkjum og 247 milljarðar króna í mannvirkjum atvinnuvega. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði var því einungis þriðjungur af heildarfjárfestingu á byggingarmarkaði samkvæmt þessum tölum.

Þrátt fyrir aukna heildarfjárfestingu á byggingarmarkaði dróst fjárfesting í íbúðarhúsnæði saman um 2 prósent að raunvirði í fyrra, auk þess sem raunvirði fjárfestingar í opinberum mannvirkjum dróst saman um 9 prósent. Fjárfesting í mannvirkjum atvinnuvega jókst hins vegar um 20 prósent umfram hækkun byggingarvísitölu.

HMS telur að íbúðafjárfesting geti verið enn minni hluti af heildarfjárfestingu á byggingarmarkaði, þar sem ofangreindar tölur frá Hagstofu um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði innihalda einnig stimpilgjöld og söluþóknun. Ætla má út frá veltu á íbúðamarkaði að slík gjöld séu um 5 til 10 prósent af fjárfestingu í íbúðarhúsnæði. Jafnframt er hluti af viðhaldi vega á vegum Vegagerðarinnar ekki talið með í fjárfestingu hins opinbera.

Starfs­fólki fjölg­aði í bygg­ing­ar­iðn­aði þrátt fyr­ir sam­drátt í íbúða­upp­bygg­ingu

Líkt og HMS hefur áður bent á störfuðu 5,2 prósent fleiri í byggingariðnaði á fyrsta fjórðungi þessa árs, samanborið við sama tímabil í fyrra. Fjöldi starfsfólks í greininni er nú áþekkur því sem hann var fyrir fjármálahrunið 2008. Sömuleiðis jókst velta fyrirtækja í greininni í fyrra um tíu prósent að raunvirði, eða úr 548 milljörðum króna í 603 milljarða króna.

Á sama tíma hefur íbúðum í byggingu fækkað, samkvæmt talningum HMS, en samdrátturinn nam um 9,3 prósentum á milli marsmánaða 2023 og 2024. Hægt er að lesa niðurstöður síðustu talningarinnar með því að smella á þennan hlekk, en þar kemur fram að umfang nýrra framkvæmda dróst saman um þriðjung milli ára.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS