4. september 2024
10. maí 2024
Tæplega sjö þúsund íbúðir í byggingu
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Alls eru 6.954 íbúðir í byggingu um land allt, samkvæmt mælaborði íbúða í byggingu. Nálægt 60% af þeim eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og um 25% í sveitarfélögum í nágrenni þess. Þetta sést á Mælaborði íbúða í byggingu, sem finna má á heimasíðu HMS.
Mælaborð íbúða í byggingu birtir samantekin gögn og talningar fyrir íbúðarhúsnæði úr Mannvirkjaskrá HMS. Mannvirkjaskrá nýtir m.a. gögn úr fasteignaskrá ásamt gögnum frá sveitarfélögum.
Hlutfall sérbýla höfuðborgarsvæðinu fer lækkandi
Um 78 prósent af íbúðum í byggingu á landinu eru í fjölbýlum og 22 prósent í sérbýlum. Sérbýlin eru í enn meiri minnihluta ef höfuðborgarsvæðið er skoðað sérstaklega þar sem 8 prósent af 4.109 íbúðum í byggingu eru sérbýli og 92 prósent í fjölbýlum. Hlutfall sérbýla mun því lækka á höfuðborgarsvæðinu þegar íbúðir í byggingu verða fullbúnar, en sérbýli eru nú 24 prósent af öllum fullbúnum íbúðum.
Mest er verið að byggja meðalstórar íbúðir í fjölbýlum sem eru 70-110 fermetrar á stærð en af sérbýlum í byggingu er algengasta stærðin 150-210 fermetrar. Samanborið við fullbúnar íbúðir þá sést að sérbýli í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru í stærri kantinum en 88 prósent af þeim eru yfir 150 fermetra að stærð.
Fleiri en minni sérbýli utan höfuðborgarsvæðisins
Utan höfuðborgarsvæðis eru jafnari hlutföll milli sérbýla og fjölbýla. Alls eru 1.634 íbúðir í fjölbýlum í byggingu utan höfuðborgarsvæðisins, en 1.211 sérbýli. Eins og á höfuðborgarsvæðinu er algengasta stærð fjölbýla 70-110 fermetrar en sérbýlin í byggingu eru talsvert minni þar sem um 66 prósent sérbýla í byggingu eru minni en 150 fermetrar.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS