6. ágúst 2024

Stúdentaíbúðir hafa áhrif á leigumarkaðinn á sumrin

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Uppsögn leigusamninga á stúdentaíbúðum í maí og júní dregur úr vægi óhagnaðardrifinna leigufélaga í Leiguskrá á sumarmánuðum. Þetta kemur fram í upplýsingum úr Leiguskrá HMS um fjölda leigusamninga eftir tegund leigusala.

HMS birtir nú tölfræði úr Leiguskrá um fjölda leigusamninga sem taka gildi og falla úr gildi eftir mánuðum og landshlutum, hverfum á höfuðborgarsvæðinu og tegund leigusala. Tölfræðin er uppfærð vikulega á föstudögum, en hana má nálgast með því að smella á þennan hlekk.

Alls tóku 1.342 nýir leigusamningar gildi í Leiguskrá í júlímánuði, á meðan 1.265 leigusamningar féllu úr gildi. Gildir samningar í Leiguskrá voru 21.944 talsins í lok mánaðarins. Líkt og sjá má á mynd hér að neðan duttu flestir samningar úr gildi hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum, en sá flokkur inniheldur bæði félagslegar leiguíbúðir og stúdentaíbúðir. Flestir samningar sem féllu úr gildi í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga voru um stúdentaíbúðir sem leigðar voru út skólaárið.

Tæpur helmingur allra gildra leigusamninga í Leiguskrá í byrjun mánaðarins eru um íbúðir í eigu sveitarfélaga og óhagnaðardrifinna leigufélaga, á meðan rúmur helmingur gildra leigusamninga eru um íbúðir í eigu einstaklinga og annarra leigufélaga.

Breytt sam­setn­ing hef­ur ekki áhrif á vísi­tölu

Breytt samsetning leigusamninga í Leiguskrá yfir sumarmánuðina hefur áhrif á meðalleiguverð allra gildra samninga ef ekki er tekið tillit til tegundar leigusala, en verðið nam 216 þúsund krónum í júlí, miðað við 214 þúsund krónur í júní. Meðalverð nýrra leigusamninga nam aftur á móti 228 þúsund krónum í júlí, miðað við 225 þúsund krónur í júní.

Fækkun námsmannaíbúða yfir sumartímann hefur hins vegar ekki áhrif á leiguvísitölu HMS, þar sem vísitalan byggir einungis á verðþróun leigusamninga fyrir íbúðir í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga.

Flestir leigusamningar á höfuðborgarsvæðinu tóku gildi í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar og á Seltjarnarnesi í síðasta mánuði, eða 445 talsins. Þar á eftir koma  svo Árbær, Grafarvogur og Grafarholt, þar sem 160 leigusamningar tóku gildi. Fæstir samningar tóku gildi í Mosfellsbæ og á Kjalarnesi, en þar voru þeir einungis 20.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS