13. janúar 2025
3. október 2022
Staða slökkviliða á Íslandi
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Í dag gaf Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) út skýrslu um stöðu slökkviliða á Íslandi. Skýrslan er unnin í kjölfarið af úttektum stofnunarinnar á starfsemi slökkviliða sem framkvæmdar voru árið 2021.
Skýrsla um stöðu slökkviliða á Íslandi
Í dag gaf Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) út skýrslu um stöðu slökkviliða á Íslandi. Skýrslan er unnin í kjölfarið af úttektum stofnunarinnar á starfsemi slökkviliða sem framkvæmdar voru árið 2021. Tilgangur úttektanna var að ná fram heildstæðri sýn yfir starfsemi slökkviliða í landinu svo unnt sé að vinna markvisst að því að efla eldvarnareftirlit og slökkvistarf þar sem þörf er á og tryggja þannig faglega, virka og samhæfða þjónustu slökkviliða um land allt. Öll slökkviliðin voru heimsótt á innan við ári og var starfsemi þeirra skoðuð í samræmi við kröfur gildandi laga og reglugerða sem þau starfa eftir. Á þeim tíma voru 34 slökkvilið á Íslandi er náðu yfir 68 sveitarfélög. Áhersla var lögð á taka út rekstur slökkviliða og húsnæði þeirra, þjálfunar- og menntunarmál slökkviliðsmanna, ástand hlífðarfatnaðar, búnaðar, ökutækja og stöðu eldvarnareftirlits.
Athugasemdir sem gerðar voru við úttektirnar leiddu í ljós m.a. eftirfarandi:
- Ekki eru öll sveitarfélög á Íslandi með slökkvilið sem er þannig skipulagt, mannað, menntað og þjálfað að það geti leyst af hendi með fullnægjandi hætti lögbundin verkefni.
- Ekki hafa öll slökkvilið til umráða fullnægjandi búnað til að geta sinnt verkefnum sínum.
- Um 50% slökkviliða uppfylla ekki settar kröfur til að geta sinnt reykköfun og slökkvistarfi innanhúss, ýmist m.t.t. búnaðar, þjálfunar, menntunar eða hæfnisskilyrða starfsmanna.
- Húsnæði slökkviliða m.t.t. til baðaðstöðu starfsmanna, geymslu og þrifa á hlífðarfatnaði og búnaði þarfnast úrbóta að einhverju leyti í flestum landshlutum.
Helstu niðurstöður úttekta á starfsemi slökkviliða
Almennt skal mannaflaþörf slökkviliða skilgreind í brunavarnaáætlun sveitarfélaga. Sé hún ekki til staðar skal mönnun byggjast á skilgreindu lágmarksviðmiði reglugerðar sem byggir á íbúafjölda. Á Íslandi eru fjögur slökkvilið sem hafa sólarhringsviðveru mannskaps á stöð, fimm hafa mannaða dagvakt og 24 slökkvilið eru eingöngu mönnuð útkallsliði. Brunavarnaáætlun skal liggja fyrir á hverju starfssvæði slökkviliðs og skal þar koma fram hvernig slökkvilið uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar. Við úttektirnar voru 64% slökkviliða ekki með samþykkta brunavarnaáætlun.
Staða brunavarnaáætlana var hvað lökust á Vestfjörðum og Norðvesturlandi þar sem aðeins tvö slökkvilið höfðu gilda áætlun. Síðustu misseri hefur HMS ráðist í sérstakt átak um eftirfylgni með gerð brunavarnaáætlana með góðum árangri en hlutfall samþykktra áætlana hefur hækkað frá úttektum og er samkvæmt nýjustu mælingum um 60%.
Skipulag slökkviliða er breytilegt eftir stærð og umfangi starfseminnar. Óháð því eru skyldur slökkviliðsstjóra hinar sömu og er því mikilvægt við ákvörðun um starfshlutfall slökkviliðsstjóra að gæta að ábyrgð hans og valdheimildum. Við úttektir voru níu slökkvilið á Íslandi með slökkviliðsstjóra í einungis 35% starfshlutfalli eða lægra. Þó má sjá að starfshlutfall slökkviliðsstjóra í fullu starfi hefur hækkað síðan á árunum 2013-2015. Í ljósi ábyrgðarhlutverks skal slökkviliðsstjóri eða staðgengill hans ávallt vera á vakt eða á bakvakt og til staðar á starfssvæði slökkviliðsins.Hjá 30% slökkviliða landsins eru slíkar stjórnendavaktir ekki tryggðar.
Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og að til staðar sé sérstakur slökkvibúnaður þar sem hans er krafist. 55% slökkviliðsstjóra telja að þörf sé á að gera úrbætur á vatnsveitu og dreifikerfi á sínu starfssvæði til að tryggja að nægjanlegt vatn og vatnsþrýstingur sé til staðar til slökkvistarfs.
Slökkvilið hafa fleiri verkefni en slökkvistarf og eru lögbundin verkefni slökkviliða fimmþætt. Sé slökkviliðum ekki stætt að sinna lögbundnu verkefnunum er heimilt að fela öðru slökkviliði eða viðeigandi aðilum hluta þeirra verkefna sem þau hafa ekki burði til að sinna. Um slíkt skal gera skriflegan samning og tilkynna til HMS. Samstarfssamningar milli slökkviliða skulu einnig liggja fyrir á mörkum útkallssvæða. Í meirihluta tilvika töldu slökkviliðsstjórar að samningar við önnur lið væru í lagi hjá sínu slökkviliði, hvort sem vegna samliggjandi útkallssvæða eða vegna þjónustu ákveðinna verkefna. Þó er ljóst að fylgja þarf frekar eftir samningagerð milli slökkviliða og endurnýja eldri samninga vegna samstarfs um rekstur slökkviliða eða vegna sameiningar sveitarfélaga.
Slökkviliðum er heimilt að taka að sér önnur verkefni, til viðbótar við þau lögbundnu, svo framarlega sem þau dragi ekki úr getu liðsins til að sinna lögbundnu verkefnunum. Öll slökkvilið landsins taka að sér einhver önnur verkefni. Átta slökkvilið sjá um framkvæmd sjúkraflutninga að öllu leyti eða að hluta til á sínu starfssvæði. Þetta eru jafnframt einu slökkviliðin sem sjá um sjúkraflutninga og notast flest við svokallaðar krossskráningar þar sem starfsmaður á vakt hefur skráð hlutverk bæði á sjúkrabíl og dælubifreið slökkviliðs á sama tíma.
Starfsstöðvar slökkviliða sem voru skoðaðar eru 72 talsins og margbreytilegar. Víðs vegar er um eldra húsnæði að ræða sem telst ekki henta fyrir starfsemi slökkviliða. Í meirihluta tilvika uppfylltu starfsstöðvarnar kröfur varðandi brunahólfun, starfsemi og brunahana. Hins vegar gáfu niðurstöður til kynna að húsnæði, m.t.t. til baðaðstöðu starfsmanna, geymslu og þrifa á hlífðarfatnaði og búnaði, þarfnaðist úrbóta að einhverju leyti í flestum landshlutum.
Gerðar eru kröfurum þjálfun og menntun slökkviliðsmanna og þau hæfnisskilyrði sem þeir þurfa að uppfylla til að sinna verkefnum slökkviliðsins. Í 73% tilvika var menntun slökkviliðsmanna almennt metin góð en hjá 9% slökkviliða var menntunarstig slökkviliðsmanna ekki í lagi þar sem það var ekki í samræmi við þjónustustig umræddra liða. Um 50% slökkviliða uppfylltu ekki settar kröfur til að geta sinnt reykköfun og slökkvistarfi innanhúss þar sem skilyrði um ýmist menntun, æfingatíma, reglubundnar heilsufarsskoðanir eða þol- og styrktarpróf voru ekki uppfyllt.
Slökkvilið skulu hafa til umráða fullnægjandi búnað til að geta sinnt verkefnum sínum og slökkviliðsmönnum ber að fá nauðsynlegar persónuhlífar til að sinna þeim störfum sem krafist er af þeim. Ástand hlífðarfatnaðar var í meirihluta tilvika metið í lagi en þó fá ekki allir slökkviliðsmenn nauðsynlegar persónuhlífar, s.s. viðurkenndan undirfatnað til að klæðast undir eldgöllum. Ekki hafa öll slökkvilið til umráða fullnægjandi búnað til að geta sinnt verkefnum sínum. Á þremur starfssvæðum eru lágmarkskröfur um búnað slökkviliðsmanna vegna björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum ekki uppfylltar. Á átta starfssvæðum slökkviliða eru lágmarkskröfur um búnað vegna mengunaróhappa á landi ekki uppfylltar. Almennt var annar búnaður slökkviliða, svo sem reykköfunartæki, dælur og lausabúnaður í góðu ástandi og hafði fengið eðlilegt viðhald í flestum tilvikum.
Eldvarnareftirlit sveitarfélaga er eitt af lögbundnum verkefnum slökkviliða, en þó er heimilt að fela skoðunarstofu eftirlit þar sem við á. Öll slökkvilið landsins sjá um eldvarnareftirlit á sínu starfssvæði að þremur slökkviliðum undanskildum. Í tveimur tilvikum er eldvarnareftirliti úthýst til óháðrar skoðunarstofu og í einu tilviki til annars slökkviliðs. Rúmlega þriðjungur slökkviliðsstjóra taldi að auka þyrfti núverandi hlutfall heildarframlags sveitarfélags sem fer í forvarnir og eldvarnareftirlit. Þetta mat slökkviliðsstjóra byggir á fyrirliggjandi áhættuþáttum og skoðanaskyldum fyrirtækjum innan þeirra starfssvæðis ásamt núverandi starfshlutfalli slökkviliðsstjóra eða þess sem sinnir eldvarnareftirliti.
Tillögur að úrbótum um starfsemi slökkviliða
Ljóst er að ekki eru öll sveitarfélög á Íslandi með slökkvilið sem er þannig skipulagt, búið, mannað, menntað og þjálfað, að það geti leyst af hendi með fullnægjandi hætti öll lögbundin verkefni. Þegar slökkviliðin landsins eru borin saman eftir landshlutum má sjá að þrátt fyrir að starfsemi slökkviliða sé í góðum farvegi hjá ákveðnum liðum er víðast hvar þörf á frekari úrbótum og stuðningi við slökkviliðin, sér í lagi minni slökkvilið landsins.
Til að bregðast við núverandi stöðu hyggst HMS fylgja eftir þeim athugasemdum sem fram koma í skýrslunni og leiðbeina sveitarfélögum og slökkviliðum um nauðsynlegar úrbætur. Til ýmissa aðgerða þarf að grípa en velflestar úrbætur kalla á víðtækt samstarf allra hagaðila. Í ljósi þess leggur HMS fram tillögur um úrbætur sem hafðar verða að leiðarljósi í þeirri vinnu sem framundan er við að styðja og styrkja slökkviliðin í landinu.
Helstu tillögur að úrbótum eru að ráðast þarf í nánari greiningu á starfsemi slökkviliða á grundvelli fyrirliggjandi úttekta og vinna að því að samræma og samþætta brunavarnir og önnur lögbundin verkefni. Sveitarfélög þurfa að huga að frekari samstarfi og sameiningum minni slökkviliða sem hafa ekki burði til að uppfylla lögbundnar kröfur og/eða takast á við stórar áhættur á þeirra svæðum. Einnig verður áfram unnið að eftirfylgni með gerð brunavarnaáætlana sveitarfélaga og að starfað sé í samræmi við þær. Vinna þarf að því að stjórnendavaktir séu tryggðar á öllum starfssvæðum slökkviliða og að starfshlutfall slökkviliðsstjóra sé í samræmi við ábyrgð hans og valdheimildir. Þá er lagt til að stuðlað verði að uppbyggingu á bað- og afeitrunaraðstöðu aðstöðu slökkviliða og bæta almenna aðstöðu til þrifa á hlífðarfatnaði og öðrum búnaði slökkviliða á stöð.
Allar tillögurnar og nánari niðurstöður úttektanna má finna í skýrslu um stöðu slökkviliða á Íslandi.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS