10. janúar 2025
10. janúar 2025
Slökkvilið landsins sinntu 656 útköllum á fjórða ársfjórðungi 2024
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Slökkvilið landsins sinntu alls 656 útköllum á fjórða ársfjórðungi 2024. Þar af voru 107 vegna umferðarslysa, þar sem 105 einstaklingar voru slasaðir og 21 fastklemmdur. Þetta kemur fram í gögnum útkallsskýrslugrunns slökkviliða sem HMS hefur unnið tölfræðiupplýsingar úr á tímabilinu.
Slökkviliðin sinna fjölbreyttum og krefjandi verkefnum þegar kemur að slökkvi- og björgunarþjónustu sveitarfélaga. Dæmi um lögbundin verkefni slökkviliða eru forvarnir, eldvarnaeftirlit, slökkvistarf, reykköfun og björgun á fastklemmdu fólki til dæmis vegna umferðarslysa. Flest slökkvilið sinna einnig öðrum verkefnum eins og sjúkraflutningum, slökkvitækjaþjónustu og björgunarstörfum.
Útköll vegna gróðurelda 105 talsins árið 2024
Slökkvilið landsins fóru í 656 útköll á fjórða ársfjórðungi 2024. Þar af voru 13 útköll vegna gróðurelda á seinustu tveimur ársfjórðungum, níu í þriðja ársfjórðungi og fjórir í þeim fjórða. Fjöldi útkalla er nánast sá sami og frá fyrra ári eða 105.
Atvikum í umferðinni hefur fjölgað seinustu ár
Á fjórða ársfjórðungi 2024 bárust 107 útkall vegna umferðaslysa og hefur slíkum útköllum farið fjölgandi síðustu ár. Alls voru þau 115 á fjórða ársfjórðungi árið 2023 og að meðaltali 88 á sama tíma 2020, 2021 og 2022 en hafa ber í huga að ekki er tekið tillit til fjölda bifreiða á landinu.
Einnig sinntu slökkviliðin 96 útköllum vegna vatnstjóna og 40 útköllum vegna viðvörunarkerfa þar sem ekki var eldur. Þá voru 10 útköll þar sem einstaklingur var í neyð og viðkomandi bjargað.
HMS sinnir öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi á sviði brunavarna. Á vefnum Vertu eldklár má nálgast forvarnar- og fræðsluefni varðandi brunavarnir heimilisins.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS