8. ágúst 2024

Rúmlega sjö þúsund íbúðir í byggingu

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Alls eru nú 7.222 íbúðir í byggingu um land allt og fjölgar þeim um tæplega 200 frá síðasta mánuði. Líkt og undanfarna mánuði eru um 60 prósent af íbúðum í byggingu staðsett á höfuðborgarsvæðinu og um fjórðungur í sveitarfélögum í nágrenni þess. Þetta kemur fram í mælaborði íbúða í byggingu, sem finna má á heimasíðu HMS.

Í mælaborðinu eru birt samantekin gögn og talningar fyrir íbúðarhúsnæði úr Mannvirkjaskrá HMS. Mannvirkjaskrá nýtir meðal annars gögn úr fasteignaskrá ásamt gögnum sem sveitarfélög landsins afhenda til HMS.

Fjöl­býl­is­í­búð­um og minni sér­býl­is­í­búð­um fjölg­ar

Vænta má að hlutdeild 70-110 fermetra íbúða muni aukast á landinu, en um helmingur íbúða sem eru í byggingu eru í þessum stærðarflokki. Aftur á móti eru einungis 36 prósent fullbúinna íbúða 70-110 fermetrar að stærð.  

Aukin hlutdeild 70-110 fermetra íbúða helst í hendur við fjölgun fjölbýlisíbúða, en mest er nú byggt af fjölbýlisíbúðum í þeim stærðarflokki í öllum landshlutum. Stærðardreifing fjölbýlisíbúða í byggingu er í nokkru samræmi við stærðardreifingu fullbúinna fjölbýlisíbúða á landinu öllu.

Hvað varðar íbúðir í byggingu í einbýli og sérbýli eru um 27 prósent þeirra á bilinu 70-110 fermetrar að stærð sem er talsvert hærra hlutfall en af fullbúnum íbúðum. Einungis um 15 prósent fullbúinna íbúða í einbýli og sérbýli eru af þessum stærðarflokki á meðan rúmlega 30 prósent eru á bilinu 110-150 fermetrar og sama hlutfall á bilinu 150-200 fermetrar að stærð.

Hátt hlutfall 70-110 fermetra íbúða í einbýli og sérbýli skýrist einna helst af uppbyggingu slíkra íbúða á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu eru hins vegar fáar íbúðir í byggingu undir 150 fermetrum að stærð í einbýli og sérbýli en megnið af þeim er á bilinu 150-270 fermetrar að stærð.

Meiri­hluti ein­býla og sér­býla í bygg­ingu á höf­uð­borg­ar­svæð­inu er á síð­ari fram­vindu­stig­um

Flestar íbúðir sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, eða 92 prósent þeirra, eru fjölbýlisíbúðir. Hins vegar er meirihluti þeirra á fyrri framkvæmdastigum, á meðan meirihluti sérbýlisíbúða í byggingu er á síðari framkvæmdastigum.

Af þeim 4.032 fjölbýlisíbúðum sem eru í byggingu eru 668 þeirra á síðari framvindustigum. Til samanburðar er 221 af 351 sérbýlisíbúð í byggingu á síðari framvindustigum.

Ný taln­ing verð­ur birt í sept­em­ber

HMS mun birta niðurstöður úr nýrri talningu á íbúðum í byggingu í september. Stofnunin framkvæmir slíka talningu tvisvar sinnum á ári og var síðasta talningin framkvæmd í mars.  Helstu niðurstöður úr marstalningunni má nálgast með því að smella á þennan hlekk.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS