5. júlí 2024

Reykjanesbær áætlar að þörf sé fyrir um 2.200 íbúðir á næstu 10 árum

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Áætlað er að íbúum Reykjanesbæjar fjölgi um 2.858 manns eða tæplega 13 prósent á næstu 5 árum
  • Fjöldi íbúða í byggingu í dag er ekki í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu
  • Lóðir fyrir 2.738 íbúðir nú þegar byggingarhæfar

Reykjanesbær hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024. Áætlunin inniheldur miðspá um mannfjöldaþróun í sveitarfélaginu, sem gerir ráð fyrir að íbúum þar muni fjölga um 24 prósent næstu 10 árin. Spáin gerir ráð fyrir hægari vexti en fyrri spár en frá árinu 2020 hefur fólki í sveitarfélaginu fjölgað um 18,5 prósent.

Samkvæmt endurskoðaðri húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar er áætlað að þörf sé fyrir rúmum 220 íbúðum á ári, 1.139 íbúðum á næstu 5 árum og 2.198 íbúðum á næstu 10 árum. Undanfarin ár hefur ekki verið byggt í takt við mannfjöldaþróun og því er íbúðaþörfin hærri í byrjun spátímabilsins, til þess að vinna upp óuppfyllta þörf. Á síðasta ári fjölgaði fullbúnum íbúðum í Reykjanesbæ um 71 íbúð.

Í marstalningu HMS voru 370 íbúðir í byggingu í Reykjanesbæ og hafði þeim fækkað um 7 prósent frá því í september 2023. Meirihluti íbúða í byggingu eru í innri Njarðvík en mikil uppbygging hefur verið á því svæði síðustu ár. Fjöldi íbúða í byggingu er ekki í takt við áætlaða íbúðaþörf samkvæmt mannfjöldaspá húsnæðisáætlunar. 

Markmið sveitarfélagsins er að deiliskipulag taki mið af því hvernig íbúðasamsetning er hentugust fyrir hvert hverfi og að fjöldi og stærð nýrra íbúða sé í samræmi við fyrirhugaða fjölgun íbúa og samsetningu þeirra. Í því ljósi hefur verið sérstaklega hugað að því að auka hlutfall lítilla og meðalstórra íbúða sem og hlutfall fjölbýlis í sveitarfélaginu. Reykjanesbær hefur nú skipulagt lóðir fyrir 4.431 íbúð og eru 2.738 af þeim nú þegar byggingarhæfar. Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að 3.120 íbúðir svo lóðaframboð mæti áætlaðri íbúðaþörf.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS