21. nóvember 2024
12. mars 2024
Ráðherra segir vegvísinn leiða til skýrrar framtíðarsýnar um umgjörð mannvirkjarannsókna
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði að þörf væri á öflugum rannsóknum tengdum mannvirkjagerð í kynningu á nýjum vegvísi HMS um mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar. Ráðherrann sagðist fullviss um að vegvísirinn leiði til skýrrar framtíðarsýnar um umgjörð mannvirkjarannsókna á Íslandi.
Inniheldur 16 aðgerðir til að mæta á næstu 1-2 árum
Vegvísirinn var gefinn út með formlegum hætti í húsakynnum HMS í Borgartúni fyrr í dag, 12. mars, en HMS hefur unnið að honum í rúmt ár. Hægt er að nálgast vegvísinn með því að smella á þennan hlekk.
Niðurstöðurnar úr vegvísinum byggja meðal annars á samtölum við hátt í 70 hagaðila, aðgerð 9 í hönnunarstefnu og aðgerð 2.9. í hvítbók húsnæðisstefnu. Vegvísirinn byggir einnig á samráði við m.a. Skipulagsstofnun, Tæknisetur, Samtök iðnaðarins, Verkfræðingafélag Íslands, Arkitektafélag Íslands, Hönnunarmiðstöð, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands.
Í vegvísinum er umgjörð rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar skoðað út frá þremur þáttum: Framkvæmd rannsókna, miðlun og hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna, og prófanir á byggingarvörum og eftirlit með framleiðslustýringu.
Fjöldi úrbótatækifæra innan hvers þessara þátta var greindur og 16 aðgerðir skilgreindar til að mæta þeim á næstu 12-24 mánuðum, bæði til að efla þekkingu í mannvirkjagerð og svo unnt sé að taka ákvarðanir um rannsóknarumhverfið til framtíðar.
Gerir stjórnvöldum kleift að taka vel undirbyggðar ákvarðanir
Í kynningu á vegvísinum sagði Sigurður Ingi að mannvirkjageirinn stæði frammi fyrir margvíslegum áskorunum, líkt og minni losun gróðurhúsalofttegunda, aukna veðuráraun vegna loftslagsbreytinga og myglu í byggingum. Til að geta brugðist við þeim væri þörf á öflugum rannsóknum á sviði mannvirkjagerðar, auk þess sem þörf verði á að tryggja utanumhald, miðlun og hagnýtingu rannsóknarniðurstaða.
„Öflugar og samfelldar rannsóknir og nýsköpunarstarfsemi í mannvirkjaiðnaði leiða í ljós nýjar lausnir, stuðla að aukinni þekkingu, faglegri vinnubrögðum, vistvænni mannvirkjum með lengri líftíma og lægri byggingar- og viðhaldskostnaði,“ sagði Sigurður Ingi á fundinum í dag. Jafnframt sagði ráðherrann að þær aðgerðir sem skilgreindar eru í vegvísinum muni gera stjórnvöldum kleift að taka vel undirbyggðar ákvarðanir um rannsóknarumhverfi mannvirkjagerðar til framtíðar.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS