1. mars 2024

Þörf fyrir tæplega 2 þúsund íbúðir á Akureyri næstu tíu árin 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Spáð er að íbúum á Akureyri fjölgi um rúmlega 11,6% næstu 10 árin 
  • Íbúðauppbygging er langt frá því að vera í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu 
  • Akureyrarbær ætlar að skapa skilyrði svo mögulegt verði að byggja allt að 1.790 íbúðir á næstu 5 árum 

Akureyrarbær hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024. Nýja húsnæðisáætlunin gerir ráð fyrir að íbúar sveitarfélagsins verði tæplega 23 þúsund talsins árið 2033, sem eykur íbúðaþörf um tæplega 2 þúsund.  Fjölga þyrfti íbúðum í byggingu umtalsvert til að sinna fyrirhugaðri íbúðaþörf.  

Líkt og myndin hér að neðan sýnir þá hefur fjöldi íbúa í sveitarfélaginu aukist um 3,5% frá árinu 2021. Samkvæmt miðspá um mannfjöldaþróun þá áætlar Akureyrarbær að mannfjöldi þar aukist um 11,6% næstu 10 árin.

Miðað við áætlaða fjölgun íbúa Akureyrarbæjar er áætlað að þörf verði fyrir um 195 íbúðir á ári, 975 íbúðir á næstu 5 árum og 1.951 íbúðir á næstu 10 árum sem er sama áætlun og gert var ráð fyrir í húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2023.  

Myndin hér að neðan sýnir árlega áætlun fyrir íbúðaþörf, auk uppsafnaðrar íbúðaþarfar samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélagsins. Líkt og myndin sýnir er áætluð árleg íbúðaþörf óbreytt frá fyrri húsnæðisáætlun, þar sem einnig var gert ráð fyrir að byggja þyrfti 195 íbúðir á hverju ári. 

Í talningu HMS voru 285 íbúðir í byggingu í september 2022 og samkvæmt september talningu árið 2023 var 271 íbúð í byggingu sem var samdráttur um nærri 5% á milli ára. Þar sem uppbygging íbúða tekur að jafnaði tvö ár er fjöldi íbúða í byggingu því langt frá því að mæta áætlaðri íbúðaþörf samkvæmt mannfjöldaspá húsnæðisáætlunar. Alls komu 75 fullbúnar íbúðir á markað í Akureyrarbæ í fyrra.

Á myndinni hér að neðan sést að 160 af þeirri 271 íbúð sem var í byggingu í síðustu íbúðatalningu voru á framvindustigi 4 og 105 íbúðir voru á framvindustigi 3. Íbúðirnar voru því í mesta lagi fokheldar.

Markmið Akureyrarbæjar í lóðamálum er að tryggja að á hverjum tíma sé jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar eftir íbúðarhúsalóðum. Það er gert með deiliskipulagi íbúðarsvæða með fjölbreyttum tegundum íbúðagerða, bæði á nýbyggingarsvæðum sem og þéttingarsvæðum.

Akureyrarbær hefur nú skipulagt lóðir fyrir 3.080 íbúðir. Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að 1.790 íbúðir svo lóðaframboð mæti vel áætlaðri íbúðaþörf. Áætlað lóðaframboð fyrir næstu 10 ár má sjá á mynd hér að neðan, þar sem 1.084 lóðir eru í samþykktu deiliskipulagi fyrir árin 2023-2027.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS