23. nóvember 2022

Ný reglugerð um Brunamálaskólann tekur gildi

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Ráðherra skipaði í lok apríl 2021 starfshóp um málefni Brunamálaskólans. Markmið hópsins var að fylgja eftir tillögum starfshóps sem skipaður var til að greina  stöðu brunamála, kanna skipulega viðhorf og úrbótatillögur helstu sérfræðinga og hagsmunaaðila málaflokksins og gera tillögur að  framtíðarsýn og stefnu Brunamálaskólans ásamt því að endurskrifa reglugerð um skólann og huga að tengingu hans við skólakerfi.

Starfshópurinn skilaði af sér ofangreindum verkefnum sl. vor og var það meðal annars niðurstaða hópsins að eldri reglugerð nr. 792/2001 um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, væri ekki í samræmi við framtíðarsýn skólans. Hópurinn lagði því fram drög að nýrri reglugerð um Brunamálaskólann sem nú hefur tekið gildi. Stærstu breytingarnar í nýrri reglugerð eru eftirfarandi:

  • Stjórn og skipulag Brunamálaskólans. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal starfrækja Brunamálaskólann. Í stað skólaráðs skv. eldri reglugerð skipar ráðherra fjögurra manna fagráð, og jafnmarga menn til vara, sem verða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans. Fagráð mótar áherslur um starfsemi og námsefni skólans, fylgist með þróun og nýjungum á sviði slökkvi- og björgunarstarfa og fylgir eftir innleiðingu á nýju námsefni hjá skólanum. Fagráð staðfestir námskrá skólans og veitir álit í ágreiningsmálum er kunna að koma upp varðandi námið og próf. Með þessum breytingum er ekki lengur gerð krafa til þess að ráðinn sé sérstakur skólastjóri heldur er rekstur skólans á forræði brunavarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem ber ábyrgð á fjármálum og rekstri skólans.
  • Breytt fyrirkomulag varðandi menntun slökkviliðsmanna. Nám slökkviliðsmanna er ekki lengur aðgreint í atvinnunám og nám fyrir hlutastarfandi en þó er gerður greinarmunur á hvort slökkviliðsmaður sé í aðal- eða aukastarfi. Stefnt verður að samræmdu grunnnámi fyrir slökkviliðsmenn sem tekur mið af lögbundnum verkefnum slökkviliða. Heimilt verður að útfæra grunnnámið með mismunandi leiðum svo það þjóni bæði slökkviliðsmönnum í aðal- og aukastarfi. Þá verður innleitt  framhaldsnám fyrir einstaklinga sem sinna slökkvi- og björgunarþjónustu í aðalstarfi sem lýtur að aukinni þekkingu og færni til starfa. Brunamálaskólinn mun bjóða upp á nýtt nám fyrir stjórnendur slökkviliða þar sem áherslan verður annars vegar á stjórnun aðgerða og hinsvegar daglega stjórnun í starfsemi slökkviliða. Einnig er skerpt á inntökuskilyrðum í námið almennt.
  • Námskrá. Breyting mun verða á hvernig nám slökkviliðsmanna skal metið. Námið verður ekki lengur metið eftir fjölda kennslustunda heldur verður það metið á grundvelli hæfnikrafna sem gerðar eru til starfsins og tilgreindar eru í námskrá Brunamálaskólans. Matið byggir á hæfniramma um íslenska menntun sem ætlað er að auðvelda samanburð, gagnsæi og hreyfanleika á milli menntakerfa og landa, svo sem til að fá námið metið.
  • Löggilding slökkviliðsmanna. Skilyrði fyrir löggildingu eru óbreytt nema að því leyti að slökkviliðsmenn sem sækja um löggildingu skulu hafa lokið grunnnámi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun sem fagráð Brunamálaskólans metur jafngilda. Jafnframt skulu þeir hafa starfað í slökkviliði eða við brunavarnir í a.m.k.  eitt ár samfellt eða í aukastarfi að lágmarki í fjögur ár. Nemendur skólans sækja um löggildingu til HMS, eins og tíðkast hefur um eitthvert skeið, og mun reglugerðin taka mið af því.
  • Í reglugerðinni er fallið frá kaflanum um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna og gert ráð fyrir að önnur lög og reglugerðir kveði á um slík atriði.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur nú undirbúning að innleiðingu á nýrri reglugerð um Brunamálaskólann.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS