19. júní 2024

Nær öll sveitarfélög hafa endurskoðað og staðfest húsnæðisáætlanir

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Húsnæðisáætlanir hjá 62 sveitarfélögum hafa verið endurskoðaðar og staðfestar fyrir árið 2024
  • Sveitarfélögin áætla að þörf verði fyrir að meðaltali 4.700 íbúðir á ári næstu fimm ár
  • HMS áætlar að fullbúnar íbúðir verið alls 3.020 talsins í lok árs 2024 og telur því afar ólíklegt að íbúðaþörf ársins verði uppfyllt

Alls hafa 62 af 64 sveitarfélögum endurskoðað og staðfest húsnæðisáætlanir fyrir árið 2024, en þau tvö sveitarfélög sem ekki hafa staðfest eru Grindavíkurbær og Tálknafjarðarhreppur. Vegna aðstæðna í Grindavík var húsnæðisáætlun sveitarfélagsins ekki endurskoðuð að þessu sinni. Tálknafjarðarhreppur hefur nú sameinast Vesturbyggð og mun sameinað sveitarfélag vinna nýja áætlun fyrir árið 2025.

Gildandi húsnæðisáætlanir fyrir hvert sveitarfélag eru aðgengilegar á heimasíðu HMS og einnig er hægt að skoða helstu niðurstöður og samantekt þeirra á mælaborði húsnæðisáætlana.

Mann­fjölda­spá, íbúða­þörf og lóða­fram­boð

Á myndinni hér að neðan má sjá mannfjöldaspá allra sveitarfélaga til ársins 2033 en mannfjöldaþróun er lykilforsenda við mat á íbúðaþörf til framtíðar ásamt fjölskyldusamsetningu og óuppfylltri íbúðaþörf. Samkvæmt miðspá sveitarfélaganna mun íbúum landsins fjölga um 10,8 prósent næstu fimm ár og 21,7 prósent  næstu tíu ár. Til samanburðar þá hefur íbúum landsins fjölgað um 9,9 prósent síðastliðin fimm ár.

Þörf á yfir 15 þús­und íbúð­um á höf­uð­borg­ar­svæð­inu næstu fimm árin

Samkvæmt miðspá sveitarfélaga er áætlað að fjölga þurfi íbúðum um 15,1 prósent á næstu fimm árum eða að meðaltali um tæplega 4.700 íbúðir á ári. Frá 2029 til 2033 er þörf fyrir að meðaltali 4.300 íbúðir á ári, 400 íbúðum færri en á fyrstu fimm árunum. Það skýrist að mestu leyti af mati sveitarfélaganna á óuppfylltri íbúðaþörf sem vinna þarf upp á næstu árum.

Í heildina er því áætluð þörf fyrir um 45.000 íbúðir á næstu tíu árum. Mest vantar af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörf er á um 15.600 íbúðum næstu fimm árin. Utan höfuðborgarsvæðisins vantar flestar íbúðir á Suðurlandi þar sem þörf er á um 2.700 íbúðum á næstu fimm árum.

Sveitarfélög landsins byggja íbúðaþörf sína á eigin mannfjöldaspá, þar sem þau spá einnig fyrir um þróun á stærð heimila með því að áætla um hversu margir munu búa í hverri íbúð. Mörg sveitarfélög taka því tillit til fjölskyldusamsetningar og telja að byggja þurfi fleiri íbúðir á hvern íbúa heldur en áður eftir því sem íbúum á efri árum fjölgar hratt og hlutfall barna af mannfjölda minnkar.

Sveitarfélögin áætla að úthluta lóðum fyrir 8.902 íbúðir árið 2024 þar sem 6.473 íbúðir eru í fjölbýlum, 1.423 í einbýlum og 1.423 í par- eða raðhúsum. Um 46 prósent af þessum 8.902 voru nú þegar á lóðum sem eru byggingarhæfar, 2,5 prósent á byggingarhæfum lóðum í biðstöðu, 25 prósent á lóðum með samþykkt deiliskipulag og 27 prósent á þróunar- og framtíðarsvæðum. Framboð lóða gegnir lykilhlutverki í að hægt sé að byggja íbúðir í takt við áætlaða þörf fyrir nýjar íbúðir.

Lóðaframboð sveitarfélaga

Fréttin var uppfærð kl. 12:40 þann 20. júní þar sem mynd fyrir mannfjöldaspá var breytt þannig að hún sýnir uppsafnaðan vöxt í staðin fyrir heildarfjölda.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS