28. mars 2025
26. mars 2025
Mikil uppbyggingarþörf í Árborg
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Áætlað er að íbúum fjölgi um 2.672 manns á næstu 5 árum, sem er fjölgun um 21,7%.
- Byggja þarf um 60-80 fleiri íbúðir árlega til að halda í við áætlaða íbúðaþörf.
- Sveitarfélagið stefnir að úthlutun lóða fyrir 2.404 íbúðir á næstu 5 árum til að tryggja nægt framboð.
Sveitarfélagið Árborg hefur staðfest endurskoðaða húsnæðisáætlun fyrir árið 2025. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að íbúum sveitarfélagsins muni fjölga um 5.922 á næstu tíu árum, sem samsvarar 48% aukningu. Til samanburðar hefur íbúum fjölgað um 1.778 frá árinu 2020, eða 17,3%, og um 4.104 á síðustu tíu árum, sem jafngildir 51,6% fjölgun. Þá var íbúafjölgunin árið 2024 um 145 manns fleiri en spáð hafði verið, sem er 41% umfram spá síðasta árs.
Mikið uppbyggingartímabil og vaxandi íbúðaþörf
Samkvæmt húsnæðisáætluninni er áætlað að þörf verði fyrir um 235 nýjar íbúðir á ári að meðaltali, eða alls 1.061 íbúð á næstu fimm árum og 2.350 á næstu tíu árum. Veruleg uppbygging hefur verið í sveitarfélaginu undanfarin ár og hefur fullbúnum íbúðum fjölgað um 207 á ári að meðaltali síðustu fimm ár, og um 174 á ári síðustu tíu ár.
Byggja þarf fleiri íbúðir ef spár ganga eftir
Samkvæmt nýjustu talningu HMS voru 392 íbúðir í byggingu í mars 2025. Það er töluvert færra en á sama tíma síðustu tvö ár, en aukning frá síðustu talningu í september 2024. Í mars í fyrra voru 17,3% fleiri íbúðir í byggingu og í mars 2023 voru þær 36,3% fleiri en þær eru nú. Á myndinni hér að neðan má sjá að mikill meirihluti íbúðanna er á fyrstu tveimur framvindustigunum, sem þýðir annars vegar að framkvæmdir við jarðvinnu er hafin og hins vegar að undirstöður eru fullgerðar.
Fjöldi íbúða sem nú teljast í byggingu dugir ekki til að mæta þeirri íbúðaþörf sem sveitarfélagið áætlar að verði á næstu tveimur árum. Þrátt fyrir að undanförnu hafi framkvæmdir hafist við byggingu á fleiri íbúðum og aukning í fjölda íbúða sem teljast í byggingu þá þyrfti að hefja byggingu á enn fleiri íbúðum ef spár ganga eftir. Byggja þyrfti að meðaltali 60-80 íbúðir til viðbótar árlega.
Markviss uppbygging húsnæðis
Húsnæðisáætlun Árborgar fyrir árið 2025 byggir á því að styðja við hraðan vöxt byggðar með markvissri og fjölbreyttri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sérstök áhersla er lögð á að fjölga einstaklingsíbúðum og almennum leiguíbúðum fyrir tekju- og eignalága, einkum með stuðningi stofnframlaga. Þá er horft til þarfa eldra fólks með því að hvetja til fjölgunar leiguíbúða sem ekki eru í eigu sveitarfélagsins og móta samsetningu húsnæðis með tilliti til heimahjúkrunar og heimaþjónustu.
Áætlanir taka einnig mið af samspili húsnæðisuppbyggingar og orkuþarfar og hefur sveitarfélagið átt gott samstarf við framkvæmdaaðila í þessum efnum. Þó að dregið hafi úr hraða nýframkvæmda vegna ytri aðstæðna, eins og hárra vaxta og verðhækkana á byggingarefnum, er staðan traust fyrir komandi ár og stefnt er að því að tryggja áframhaldandi orkuöflun og uppbyggingu innviða til að mæta áframhaldandi fólksfjölgun.
Nægt lóðaframboð til að mæta vaxandi íbúðaþörf
Árborg hefur nú skipulagt lóðir fyrir 5.153 íbúðir og á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið að því að úthluta lóðum fyrir allt að 2.404 íbúðir. Lóðaframboð ætti því að mæta vel áætlaðri íbúðaþörf gangi úthlutunaráætlanir eftir.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS