14. mars 2025
14. mars 2025
Meðalleiga lægst en fermetraverð hæst í Reykjavík í febrúar
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Rúmlega þrír af hverjum fjórum nýjum leigusamningum í febrúar vörðuðu eignir sem leigðar eru út á markaðsforsendum
- Meðaltal markaðsleigu á landinu öllu stóð í stað á milli mánaða
- Heildarleiguverð var lægst en fermetraverð hæst í Reykjavíkurborg í febrúar
Alls tóku 1.400 nýir samningar gildi í leiguskrá HMS í febrúar á sama tíma og 791 samningur féll úr gildi. Gildum leigusamningum fjölgaði þannig um 609 milli mánaða. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr leiguskrá og eru aðgengilegar í mælaborði leiguskrár.
Markaðsleiga stendur í stað milli mánaða
Af þeim 1.400 samningum sem tóku gildi í febrúar voru 77 prósent á vegum einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga, en HMS metur markaðsleigu út frá slíkum samningum. Hlutfallið var sambærilegt í febrúar árið 2024 þegar 79 prósent af 1.297 nýjum samningum voru gerðir á markaðsforsendum.
Meðaltal markaðsleigu í nýskráðum samningum í febrúar var 263 þúsund krónur og er óbreytt frá fyrri mánuði. Sé litið til leiguíbúða sem eru minni en 80 fermetrar var meðaltal markaðsleigu 231 þúsund krónur og hækkaði um 1,3 prósent milli mánaða. Fyrir stærri leiguíbúðir var leiguverð að meðaltali 296 þúsund krónur og lækkaði um 2,1 prósent milli mánaða.
Heildarverð hæst en fermetraverð lægst á Seltjarnarnesi
Markaðsleiguverð er nokkuð breytilegt eftir landshlutum og sveitarfélögum, eins og sjá má á myndinni hér að neðan sem sýnir meðaltal markaðsleigu í sveitarfélögum þar sem gerðir voru fimm eða fleiri leigusamningar í mánuðinum.
Eins og við er að búast var markaðsleiga að meðaltali hæst í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, ívið lægri í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og lægst annars staðar á landsbyggðinni. Það sama gildir um meðaltal fermetraverðs.
Á höfuðborgarsvæðinu var dýrast að leigja á Seltjarnarnesi, þar sem meðalleiga var um 338 þúsund krónur, en ódýrast í Reykjavíkurborg, þar sem meðalverð var 274 þúsund krónur. Sé hins vegar litið til leiguverðs á hvern fermetra er þessu öfugt farið, þar sem meðalfermetraverð var hæst í Reykjavíkurborg en lægst á Seltjarnarnesi. Skýringin liggur í því að alla jafna eru stærri íbúðir leigðar út á Seltjarnarnesi samanborið við í Reykjavík.
Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var markaðsleiga hæst í Suðurnesjabæ, um 269 þúsund krónur, en lægst í Reykjanesbæ, um 245 þúsund krónur. Fermetraverð var aftur á móti að meðaltali hæst í Reykjanesbæ en lægst í Suðurnesjabæ. Á landsbyggðinni var markaðsleiga hæst á Akureyri, hvort sem litið er til meðaltals heildarverðs eða fermetraverðs.
Leiguverðsjá
Hægt er að nálgast upplýsingar um meðalleiguverð íbúða í leiguverðsjá HMS, sem byggir á samningum úr leiguskrá. Þar geta notendur valið landsvæði, sveitarfélag og póstnúmer leigueigna, fjölda herbergja, flatarmál og byggingarár. Einnig geta notendur síað leigusamninga eftir tegund leigusala og eftir því hvort samningar séu tímabundnir eða ekki.
Upplýsingar í leiguskrá í sífelldri uppfærslu
Hægt er að skrá upplýsingar um leigusamninga afturvirkt í leiguskrá HMS. Þar af leiðandi er möguleiki á að upplýsingar um verð og fjölda samninga sem taka gildi og falla úr gildi eftir mánuðum taki breytingum yfir tíma. Ekki er því hægt að tryggja fullkomið samræmi í birtingu slíkra upplýsinga frá einum tíma til annars.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS