23. janúar 2025
21. mars 2024
Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir mars 2024
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
HMS hefur birt mánaðarskýrslu sína fyrir marsmánuð 2024. Hægt er að nálgast skýrsluna með því að smella á hnappinn neðst á síðunni, en helstu atriði hennar eru eftirfarandi:
- Fasteignamarkaðurinn virðist hafa hitnað í febrúar, en vísitala íbúðaverðs og gögn um fasteignaauglýsingar gefa vísbendingu um aukna virkni og hærra íbúðaverð. Breytingin er mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en HMS telur að íbúðakaup Grindvíkinga hafi haft þar áhrif.
- Markaðurinn fór hins vegar nokkuð rólega í stað í janúar, þar sem kaupsamningum fækkaði á milli mánaða í öllum landshlutum. Þó voru kaupsamningarnir fleiri en í janúar á síðasta ári.
- Fasteignaviðskipti eru drifin áfram af nýbyggingum, en hlutdeild þeirra í kaupsamningum hefur ekki verið jafnmikil á síðustu mánuðum og frá því að mælingar HMS hófust árið 2006.
- Leigumarkaðurinn ber merki um viðsnúning, þar sem leiguverð hækkar hratt umfram almennt verðlag. Einnig bendir leigumarkaðskönnun HMS til þess að staða leigjenda hafi versnað á síðasta ári.
- Minni breytileiki er á leiguverði stærri íbúða eftir póstnúmerum, sem bendir til þess að leigjendur þeirra sækist ekki jafnmikið í að búa miðsvæðis í Reykjavík og leigjendur minni íbúða.
- Lánamarkaðurinn sýnir lítils háttar aukningu í hreinum nýjum útlánum á milli desember og janúar, þrátt fyrir að kaupsamningum fækkaði milli mánaða. Þetta bendir til aukinnar skuldsetningar fasteignakaupenda og að þeir séu háðari lánsfjármögnun en síðustu misseri.
- Byggingarmarkaðurinn hefur dregist saman á síðustu mánuðum, en fyrstu niðurstöður úr nýjustu íbúðatalningu HMS sýna að framkvæmdum hafi fækkað á síðustu 12 mánuðum. Á sama tíma hefur atvinnulausum fjölgað í byggingariðnaði.
- Færri börn og öldrun þjóðar kallar á fleiri íbúðir. Greining HMS á íbúðaþörf sýnir að færri íbúar búa nú í hverri íbúð en fyrir 30 árum síðan. Hins vegar bendir fækkun barna og fjölgun íbúa á efri árum til þess að fullorðnir búi þrengra en áður.
Vísbendingar um meiri þrýsting samhliða íbúðakaupum Grindvíkinga
Gögn um fasteignaauglýsingar benda til að miklar breytingar hafi átt sér stað í umsvifum á fasteignamarkaði í febrúar. Um 1.400 auglýstar fasteignir voru teknar úr sölu í febrúar og voru þær helmingi fleiri en í janúar. Hlutfallslega átti mesta breytingin sér stað í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Vísbendingar um verðþrýsting má einnig sjá í nýrri vísitölu íbúðaverðs, sem HMS kynnti þriðjudaginn 19. mars. Hækkun vísitölunnar um 1,9 prósent á milli mánaða í febrúar er að mestu leyti tilkomin vegna verðhækkunar á fjölbýli, en vísitala fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,1%. Hafa ber þó í huga að sveiflur eru á nýrri vísitölu íbúðaverðs og undirvísitölum hennar á milli mánaða, en vísitala fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,0% á tveimur mánuðum í febrúar.
Vísitala fjölbýlis á landsbyggðinni hækkaði sérstaklega mikið, eða um 6,4% á milli mánaða. Þessi hækkun er fyrst og fremst tilkomin vegna aukinnar virkni á fasteignamarkaðnum á Suðvesturhorni landsins og voru kaupsamningar í Reykjanesbæ að minnsta kosti þrefalt fleiri í febrúar en í janúarmánuði.
Breytt samsetning þjóðar kallar á fleiri íbúðir
Lýðfræðilegar breytingar svo sem lækkandi fæðingartíðni og hækkandi meðalaldur hafa gert það að verkum að þörf er á fleiri íbúðum á hvern íbúa en áður.
Á síðustu 30 árum hefur íbúðum fjölgað meira en íbúum. Breytt samsetning íbúanna bendir hins vegar til þess að íbúar á fullorðinsaldri búi nú þrengra en áður. Myndin hér að neðan sýnir þróun íbúa á íbúð á aldrinum 18-60 ára, að því gefnu að eina íbúð þurfi fyrir hverja tvo íbúa yfir 60 ára aldri.
Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS