27. mars 2023

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir mars 2023

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Alls voru 411 kaupsamningar gefnir út í janúar á landinu öllu og hafa ekki verið færri síðan í janúar 2012.
  • Nærri 700 íbúðir voru þó teknar úr sölu í febrúar sem bendir til þess að þótt fasteignamarkaðurinn hafi kólnað sé hann ekki líflaus.
  • Hlutfall íbúða sem seldist á yfirverði jókst á höfuðborgarsvæðinu úr 12,4% í janúar í 14,5% í febrúar. Þrátt fyrir að íbúðamarkaður hafi kólnað verulega á undanförnum misserum er hlutfall yfirverðs hærra en það var flesta mánuði á árunum 2013-2020.
  • Tólf mánaða verðhækkun íbúðarhúsnæðis mælist nú 12,4% á höfuðborgarsvæðinu og fer hratt lækkandi.
  • Íbúum á Íslandi fjölgaði um 11.510 í fyrra eða um 3,1% sem er mesta fjölgun sem mælst hefur svo langt sem mælingar ná, eða frá 1703. Hröð íbúafjölgun gæti sett þrýsting á leigu- og fasteignamarkað.
  • Útistandandi lán banka til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hafa aukist úr 195 ma.kr. í ágúst 230 ma.kr. nú miðað við núverandi verðlag.

Seðla­bank­inn herð­ir taum­hald­ið enn frek­ar

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í síðustu viku um 1 prósentustig í 7,5%. Hafa stýrivextir ekki verið jafn háir síðan á fyrri hluta árs 2010. Þá voru innan við 10% íbúðalána hjá bönkunum óverðtryggð og aðrar útlánastofnanir ekki farnar að bjóða upp á slík lán. Lægstir voru stýrivextir 0,75% á fyrri hluta 2021.

Ef bankarnir hækka vexti jafn mikið og stýrivexti voru hækkaðir um verða lægstu óverðtryggðu vextir bankanna á bilinu 9-9,34%. Mánaðargreiðslubyrði á 40 m.kr. óverðtryggðu láni getur því hækkað úr 275 þús.kr. í 305 þús.kr.

Þó eru tiltölulega fá heimili sem munu upplifa svo mikla hækkun á greiðslubyrði. Um 30% heimila sem búa í eigin húsnæði eiga íbúðir sínar skuldlaust samkvæmt lífskjararannsókn

Hagstofunnar frá 2021 og þá eru mörg heimili sem skulda lítið. Samkvæmt nýjasta riti Fjármálastöðugleika voru aðeins um 12% með þeirra sem skulda með greiðslubyrði yfir 260.000 kr. í janúar. Um 30,5% heimila eru með íbúðaskuldir með greiðslubyrði undir 100.000 kr. á mánuði og 73,4% heimila með greiðslubyrði undir 200.000 kr.

Færri telja leigu­verð íþyngj­andi en erf­ið­ara þyk­ir að finna leigu­hús­næði

Samkvæmt árlegri leigukönnun HMS, sem framkvæmd er af Prósent, var meðalhúsaleiga 173.200 kr. í fyrra. Þar af var leigan 185.300 á höfuðborgarsvæðinu en 153.900 annars staðar á landsbyggðinni.

Nokkrir mælikvarðar gefa til kynna að í fyrra hafi farið að þrengja að leigjendum á nýjan leik en staða þeirra virðist hafa farið batnandi að mörgu leyti á árunum þar á undan. Til að mynda fækkaði þeim sem fannst auðvelt að verða sér úti um það húsnæði sem það býr í núna úr 45,8% í 39,5%. Svo mikil breyting á milli ára er áhugaverð í ljósi þess að lítill hluti leigjenda hefur skipt um íbúð á undanförnu ári. Að sama skapi rúmlega helmingast fjöldi þeirra sem telja að mikið framboð sé af íbúðarhúsnæði til leigu, sem henti sér og sinni fjölskyldu.

Hins vegar hefur heimilum sem telja húsnæðiskostnað sinn vera íþyngjandi fækkað verulega á undanförnum árum samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar. Til að mynda voru 25,4% heimila á leigumarkaði með íþyngjandi húsnæðiskostnað að eigin mati árið 2015 en hlutfallið lækkaði í 18,7% árið 2021 og í 13,8% árið 2022.

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS