20. júní 2024

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir júní 2024

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Mánaðarskýrsla HMS fyrir júní 2024 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur fram að velta stóreykst á fasteignamarkaði og eftirspurn helst mikil á leigumarkaði, samhliða því að fasteigna- og leiguverð hækkar hratt. Á sama tíma dregur þó úr útlánum til heimila, sem bendir til þess að kaupendahópur á íbúðamarkaði hafi breyst.

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Flest­ar íbúð­ir á yfir 60 millj­ón­um króna

Fasteignamarkaðurinn var líflegur í apríl, þriðja mánuðinn í röð. Kaupsamningar í mánuðinum voru um 1.400. Af þeim voru 229 vegna kaupa Fasteignafélagsins Þórkötlu á íbúðum í Grindavík. Íbúðaverð hefur tekið við sér samhliða aukinni veltu á markaði og hækkað um 4,9% á fyrstu fimm mánuðum ársins eða sem nemur 12,2% hækkun á ársgrundvelli.

Meira en 85% íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru verðlagðar á yfir 60 milljónum. Lítið framboð íbúða á undir 60 milljónum er eitt merki þess að erfitt sé fyrir fyrstu kaupendur að koma inn á húsnæðismarkaðinn. Líkt og fram kom í síðustu mánaðarskýrslu fækkaði ungum kaupendum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Gögn um fasteignaauglýsingar benda til þess að umsvif á fasteignamarkaði hafi haldist áfram mikil í maí, þar sem margar íbúðir voru teknar úr birtingu af auglýsingasíðum fasteigna. Alls voru 1.228 fasteignir teknar úr sölu í maí, en í apríl voru þær 1.130. Fleiri íbúðir voru teknar af sölu í maí samanborið við apríl í öllum landshlutum.

Leigu­verð hækk­ar hratt sam­hliða ójafn­vægi á milli fram­boðs og eft­ir­spurn­ar

Leigumarkaðurinn ber áfram merki ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar en vísitala leiguverðs hækkaði um 3,2% í maí og hefur hún hækkað um 13,3% frá því í maí í fyrra, sem er töluvert umfram hækkun íbúðaverðs (8,4%) og verðbólgu (6,2%) yfir sama tímabil.

Um þrjár af hverjum fjórum leigueiningum á leiguvefnum Airbnb á höfuðborgarsvæðinu eru í Reykjavík. Um 2.500 leigueiningar voru skráðar á höfuðborgarsvæðinu í maí sem er sami fjöldi og var í boði í maí í fyrra. Megnið af leigueiningunum á höfuðborgarsvæðinu sem í boði eru á Airbnb eru heilar íbúðir, eða 2.200 þeirra. Athygli vekur að tæplega helmingur þeirra eða um þúsund þeirra eru í boði lengur en 90 daga á ári. Umsvif á vefnum eru mest yfir sumarið. Í fyrra voru 3.700 leigueiningar í boði á svæðinu í júlí og ágúst á Airbnb.

Breytt­ur kaup­enda­hóp­ur sem þarf síð­ur lán

Á lánamarkaði má sjá áhrif vaxtahækkana í minni útlánum til heimila. Fjárhæð íbúðalána til heimila hafa haldist óbreytt á föstu verðlagi síðastliðin tvö ár. Kaupsamningar á fyrstu fjórum mánuðum ársins (uppkaup Þórkötlu í apríl eru ekki þar inni) eru um 15% fleiri en á sama tímabili 2022.

Þrátt fyrir þá fjölgun kaupsamninga eru hrein íbúðalán fjármálastofnana til heimila á föstu verðlagi um þriðjungi lægri í ár miðað við 2022 sé miðað við fyrstu fjóra mánuði hvors árs. Er þetta til marks um að kaupendahópur á íbúðamarkaði er annar þessi misserin og síður háður fjármögnun á íbúðalánamarkaði.

Íbúða­upp­bygg­ing ekki á bak við þenslu á bygg­ing­ar­mark­aði

Byggingarmarkaðurinn heldur uppi útlánavexti fyrirtækja og er drifinn áfram af fjárfestingum í mannvirkjum atvinnuvega. Á mynd hér að neðan má sjá breytingar í útlánum til fyrirtækja á föstu verðlagi síðustu þrjú árin.

Líkt og HMS hefur áður fjallað um jókst heildarfjárfesting á byggingarmarkaði um 5% í fyrra og nam hún 562 milljörðum króna. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði var einungis um þriðjungur af heildarfjárfestingu á byggingarmarkaði á tímabilinu. Fjárfesting í mannvirkjum atvinnuvega jókst hins vegar töluvert og stóð sá flokkur einn að baki aukinni heildarfjárfestingu í greininni í fyrra.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS