20. júlí 2023

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir júlí 2023

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Líkt og undanfarna mánuði er rólegt á fasteignamarkaði. Framboð íbúða eykst og birgðatími lengist. Verð hefur haldist nokkuð stöðugt en vegna verðbólgu hefur raunverð lækkað umtalsvert og mælist 12 mánaða raunverðslækkun á höfuðborgarsvæðinu nú  tæplega 6%.
  • Hrein ný útlán eru lítil og útistandandi íbúðalán dragast saman að raungildi. Raunvextir hafa hækkað verulega bæði á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum og eru raunvextir óverðtryggðra lána nú að nálgast verðtryggða sé miðað við spár um þróun verðbólgu.
  • Hlutfall veðsetningar íbúðalána af fasteignum heimila var 27% um síðustu áramót. Það hefur ekki verið lægra á því tímabili sem tölur Hagstofunnar ná til eða frá 1997.
  • Fjölgun íbúa á Íslandi er áfram hröð og haldi hún áfram með sama krafti gætu íbúar á Íslandi orðið um 400 þúsund í árslok 2023. Íbúum hefur fjölgað mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Í Reykjanesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Árborg hefur íbúum fjölgað um tæp 30% frá árinu 2017.

Raunverð íbúða heldur áfram að lækka

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,1% í júní. Lækkun á fjölbýli og sérbýli var rétt um 1%. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lækkaði verð um 2,1% og annars staðar á landsbyggðinni um 0,5%.

Síðustu 12 mánuði hefur raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 5,7% miðað við vísitölu neysluverðs. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins mælist nú raunverðslækkun á síðustu 12 mánuðum í fyrsta skipti síðan 2014. Annars staðar á landsbyggðinni hefur raunverð hækkað síðustu 12 mánuði en þar var hækkunin nokkuð minni á árunum 2020-2022 en á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess.

Á höfuðborgarsvæðinu voru útgefnir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði aðeins 321 miðað við árstíðaleiðréttar tölur. Þótt kaupsamningar hafi verið fleiri en í febrúar hefur þeim fækkað síðan þá þegar leiðrétt er fyrir árstíðabundnum sveiflum og hafa þeir ekki verið færri á þann mælikvarða síðan í febrúar 2011.

Enn virðist hægja meira á sölu nýrra íbúða en þeirra sem eldri eru en í maí var hlutdeild nýrra íbúða af seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu aðeins um 9,9% miðað við þriggja mánaða meðaltal en til samanburðar var það 15,5% í maí í fyrra og 19,5% í maí 2021.

Íbúðalán dragast saman

Útistandandi lán halda áfram að dragast saman að raunvirði. Að hluta til stafar það af litlum nýjum útlánum en einnig hafa raunvextir á óverðtryggðum lánum verið neikvæðir undirfarið. Hækkandi vextir á lánum með breytilegum vöxtum gætu einnig stuðlað að sparnaði heimila í formi aukinna upp- og umframgreiðslna íbúðalána.

Veð­setn­ing­ar­hlut­fall heim­ila aldrei ver­ið lægra

Samhliða hækkandi fasteignaverði hefur eiginfjárstaða heimila batnað og eru íbúðalán heimila nú um 27% af verðmæti fasteigna í þeirra eigu. Er þetta lægsta veðsetningarhlutfall sem mælst hefur í þann aldarfjórðung sem tölurnar ná til.

Verða íbú­ar 400 þús­und í árs­lok 2023?

Íbúar Íslands voru 393.955 samkvæmt þjóðskrá 1. júlí 2023 og fjölgaði um 984 á milli mánaða. Fjölgunin það sem af er ári er meiri en á sama tíma árið 2022. Vert er að benda á að í maí í fyrra herti mjög á fjölguninni. Fjölgunin síðustu 3 mánuði er ívíð minni en hún var sömu mánuði í fyrra. Eins og þróunin í fyrra sýnir er erfitt að spá fyrir um fólksfjölda sem að mestu er drifinn áfram af aðflutningi fólks. Ef fjölgun verður áfram í sambærilegum takti það sem eftir er árs má búast við að íbúum landsins fjölgi svipað mikið og árið 2022 og gætu þá orðið um fjögur hundruð þúsund í lok ársins.

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS