8. júlí 2020

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir júlí 2020

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Mikill fjöldi íbúða tekin af söluskrá gæti bent til aukinnar veltu á fasteignamarkaði

Mikill fjöldi íbúða tekin af söluskrá gæti bent til aukinnar veltu á fasteignamarkaði

Töluverð aukning hefur mælst í þeim íbúðum sem teknar hafa verið af söluskrám fasteignasala í maí og júní síðastliðnum.

  • Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði íbúðaverð um 5,5% á milli ára í maímánuði miðað við vísitölu paraðra viðskipta, sem er mesta 12 mánaða hækkun síðan í nóvember 2018.
  • Tölur fyrir maímánuð benda til þess að þinglýstum kaupsamningum sé farið að fjölga aftur á landsbyggðinni.
  • Meðalsölutími íbúða hefur verið að styttast frá því í fyrra.
  • Minni raunverðshækkun á ársgrundvelli í vísitölu leiguverðs en mælst hefur undanfarin ár. 
  • Í maí hafði hlutfall leiguverðs af kaupverði lækkað um 3,8% frá sama tíma í fyrra.
  • Þinglýstir leigusamningar í maímánuði voru nokkuð fleiri en í sama mánuði í fyrra. 
  • Hrein ný útlán bankanna vegna íbúðakaupa námu 22,3 milljörðum kr. í maí síðastliðnum og hafa þau aldrei verið meiri.
  • Hrein ný óverðtryggð útlán með breytilegum vöxtum voru allsráðandi og námu um 27,4 ma.kr.
  • Innflutningur byggingahráefna jókst annan mánuðinn í röð í maí eftir að hafa verið óvenju lítill í mars síðastliðnum.

 

Fasteignamarkaður

Fjöldi íbúða sem hafa verið teknar af söluskrá hefur verið með mesta móti í maí og júní. Sé auglýsing tekin úr birtingu merkir það yfirleitt að viðkomandi íbúð sé komin í söluferli, en einnig getur það verið vegna þess að eigandi íbúðar hættir við að selja hana.

Íbúðaverð hækkaði frá maí 2019 til maí 2020 um 3,9% að nafnvirði miðað við vísitölu paraðra viðskipta þegar allt landið er undir. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði íbúðaverð um 5,5% á milli ára, sem er mesta 12 mánaða hækkun síðan í nóvember 2018. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins nam hækkunin 5,3%. Á landsbyggðinni hefur hægst á verðhækkunum íbúðarhúsnæðis á undanförnum tveimur árum, líkt og á landinu öllu, en í maí hafði íbúðaverð lækkað um 1,6% að nafnvirði frá sama tíma í fyrra.

Raunverð fasteigna hefur þar af leiðandi hækkað um 2,9% á milli ára á höfuðborgarsvæðinu og 2,6% í nágrenni þess. Í maí nam raunverðslækkun húsnæðisverðs á landsbyggðinni rúmum 4% en á landinu öllu hækkaði raunverð íbúðarhúsnæðis um 1,3% frá sama tíma í fyrra.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur fjöldi kaupsamninga haldist nokkuð stöðugur undanfarin tvö ár en á fyrstu mánuðum þessa árs má greina fækkun í þinglýsingum kaupsamninga. Í maí var 382 kaupsamningum þinglýst samanborið við 521 í maímánuði í fyrra. Að sama skapi dró úr fjölda þinglýstra kaupsamninga á landsbyggðinni í upphafi árs. Hins vegar benda tölur fyrir maímánuð til þess að þinglýsingum sé farið að fjölga aftur á landsbyggðinni eftir ládeyðuna sem fylgdi samkomubanni og öðrum afleiðingum COVID-19.

Íbúðir seldar í maímánuði voru að meðaltali 77 daga í sölu. Meðalsölutími íbúða fyrir landið í heild hefur haldist nær óbreyttur á milli mánaða síðan í mars. Ef horft er til 12 mánaða breytinga hefur meðalsölutími nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu styst um 12,3% á milli ára og eldri íbúða um 15%. Á landsbyggðinni styttist meðalsölutími nýrra íbúða um 6% á milli ára en lengdist ögn fyrir eldri íbúðir eða um 2%.

 

Leigumarkaður

Vísitala leiguverðs fyrir landið allt hækkaði um ríflega 3% að nafnvirði á milli ára, eða um 0,5% umfram almennt verðlag. Það er minni raunverðshækkun á ársgrundvelli en mælst hefur undanfarin ár. Á milli apríl og maí stóð leiguverð nokkurn veginn í stað að nafnvirði og lækkaði um rúmlega hálft prósent að raunvirði samkvæmt vísitölu leiguverðs HMS. Þinglýstum leigusamningum fækkaði á milli ára miðað við sama tíma í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu nam fækkunin 11,5% og í nágrenni þess tæpum 7% í aprílmánuði. Á landsbyggðinni var jafn mörgum leigusamningum þinglýst í apríl og á sama tíma í fyrra.

Í maí þessa árs hafði hlutfall leiguverðs af kaupverði lækkað um 3,8% frá sama tíma í fyrra. Lækkunina má einkum rekja til skarpra lækkana á leiguverði en hækkun íbúðaverðs hefur einnig stuðlað að lækkuninni. Hlutfallið lækkaði um 3% í maí frá því í mánuðinum á undan og nær 6% frá því í ársbyrjun. Þá hefur leiguverð sem hlutfall af kaupverði ekki verið lægra síðan í júní árið 2018.

Þinglýstir leigusamningar í maímánuði 2020 voru nokkuð fleiri en í sama mánuði í fyrra. Á landinu öllu voru þinglýsingar í maí á þessu ári 793 talsins samanborið við 711 í maí 2019, og nemur fjölgunin því 11,5% á milli ára.

 

Lánamarkaður

Hrein ný útlán  bankanna vegna íbúðakaupa námu 22,3 ma.kr. í maí síðastliðnum og hafa þau aldrei verið meiri. Hrein ný óverðtryggð útlán með breytilegum vöxtum voru allsráðandi og námu um 27,4 ma.kr. en uppgreiðslur voru meiri en útlán fyrir lán á föstum vöxtum, hvort sem um var að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán. Hrein ný útlán lífeyrissjóða til heimilanna drógust aftur á móti áfram saman um tæp 38% frá apríl til maí, eftir 78% samdrátt frá mars til apríl.

Aukin ásókn í óverðtryggð lán stafar fyrst og fremst af skarpri lækkun vaxta á óverðtryggðum lánum en lægstu vaxtakjör á óverðtryggðum lánum hafa lækkað um 2,75 prósentustig frá því í júlí í fyrra. Verðtryggðir vextir hafa lækkað minna en lægstu vaxtakjör bankanna hafa til að mynda lækkað um eitt prósentustig frá því í júlí í fyrra. Hjá mörgum lífeyrissjóðum hafa vextir verðtryggðra lána lækkað enn minna.

 

Byggingamarkaður

Innflutningur byggingahráefna jókst annan mánuðinn í röð í maí eftir að hafa verið óvenju lítill í mars síðastliðnum. Miklar sveiflur eru gjarnan á milli mánaða og því er erfitt að dæma þróun á innflutningi út frá mánaðarlegum gildum. Ef horft er á leitni hefur innflutningur hins vegar dregist saman um fjórðung í magni miðað við sama tíma síðasta árs og um 19% miðað við verðmæti innflutnings.

Að sama skapi hefur dregið nokkuð úr fjölda launþega í byggingariðnaði frá því á vormánuðum 2019, sé miðað við árstíðaleiðréttar tölur og þá einkum í flokknum „bygging húsnæðis“. Í janúar síðastliðnum voru um 6.000 manns að vinna í þeim flokki miðað við 6.700 mánuðinn áður og 7.100 í janúar 2019. Litlar breytingar hafa hins vegar átt sér stað í öðrum flokkum byggingariðnaðarins.

Samkvæmt fasteignaskrá eru nú um 4.400 íbúðir með byggingarár 2019 eða 2020. Byggingarár er það ár sem íbúðir eru fyrst skráðar á byggingarstig 4 eða hærra, sem jafngildir fokheldi. Þess má geta að ýmsar íbúðir sem eru nú til sölu hafa annað hvort ekki náð því stigi eða eru ekki komnar með sér fastanúmer og eru því ekki taldar hér með. Hér eftir verður talað um nýjar íbúðir eða nýbyggingar þótt margar þeirra séu ekki fullkláraðar.

Af þessum 4.400 íbúðum eru tæplega þúsund sérbýli en hinar eru í fjölbýlishúsum. Rúmlega 1.500 nýjar íbúðir eru í Reykjavík, nær 600 í Kópavogi og um 300 í Garðabæ, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Árborg og á Akureyri. Rangárþing ytra er eina sveitarfélagið, að Akureyrarbæ frátöldum, sem er í meira en klukkustundar akstursfjarlægð frá Reykjavík og með yfir 30 nýjar íbúðir en Hella er stærsti byggðarkjarninn í sveitarfélaginu. Á Norðvesturlandi eru 33 nýjar íbúðir, á Vestfjörðum eru þær 21 og 14 á Austurlandi.

 

 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS