22. apríl 2025
17. janúar 2022
Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir janúar 2022
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Meðalkaupverð íbúða á landinu var 58,5 m.kr. í nóvember sl. samanborið við 50,8 m.kr. í nóvember árið áður.
- Árshækkun íbúðaverðs mældist 15,4% á landinu öllu í nóvember.
- Enn eitt metið á höfuðborgarsvæðinu féll í nóvember þegar 43,6% allra seldra íbúða seldust yfir ásettu verði.
Áframhaldandi samdráttur í fjölda íbúða til sölu
Í fyrstu vikunni í janúar voru 487 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem er 20,2% minna en 1. desember sl. fyrir rétt rúmum mánuði síðan en bæði fjöldi einbýla og íbúða í fjölbýli eru í sögulegu lágmarki. Fyrir tæpum tveimur árum, nánar til tekið í maí 2020, var fjöldi þeirra um 2.200. Meira en helmingur af íbúðum til sölu eru með fjögur herbergi eða fleiri og því hefur dregið enn meira úr minni íbúðum til sölu.
Í nóvember sl. voru gefnir út 1.024 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði á landinu öllu samanborið við 982 í október. Það gerir um 17% færri kaupsamningar en voru á sama tíma árið 2020. Veltan hefur hins vegar aðeins dregist saman um 5,2% enda hefur meðalkaupverð hækkað um 15,1%. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins voru kaupsamningar 200 talsins sem er met fyrir desembermánuð og sömu sögu er að segja annars staðar á landsbyggðinni þar sem fjöldi kaupsamninga var 193.
Viðskiptabankarnir ekki lengur með lægstu óverðtryggðu vextina
Lengi vel buðu bankarnir uppá lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum en það hófst mikil sókn í óverðtryggð lán hjá þeim þegar meginvextir Seðlabankans lækkuðu umtalsvert árið 2020. Hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána af heildaríbúðalánum hélt áfram að aukast í nóvember. Nú eru viðskiptabankarnir ekki lengur með lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum þar sem Gildi og Lífeyrissjóður Verslunarmanna eru nú með lægri vexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Annað sem stóð upp úr á lánamarkaði var að óverðtryggð útlán lífeyrissjóðanna voru hærri en uppgreiðslur í fyrsta skipti í 18 mánuði.
Greiðslubyrði óverðtryggðra lána hækkað um 13,4% frá því í vor
Greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum frá bönkum eru nú 42.200 kr. á hverjum 10 m.kr. sem teknar eru að láni miðað við lægstu vexti sem bjóðast á en meðan greiðslubyrði fór lægst í 37.300 í á fyrstu fimm mánuðum ársins í fyrra. Vextir eru þó enn frekar lágir og til samanburðar þá var greiðslubyrðin 53.900 kr. á hverjar 10 m.kr. lánaðar fyrir þremur árum og 60.900 kr. fyrir fimm árum. Greiðslubyrði á verðtryggðu láni er 27.700 kr. á hverjar 10 m.kr. lánaðar og hefur farið lækkandi því hún var 29.700 kr. í nóvember sl. og 35.000 kr. í nóvember 2019.
Nánari upplýsingar veitir Kári S Friðriksson, hagfræðingur HMS, í síma 693-5934
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS