8. júlí 2025
26. ágúst 2021
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu tekur við sér
Nýjar tölur þjóðskrár sýna að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu er farið að taka við sér. Vísitala Þjóðskrár fyrir leiguverð á höfuðborgarsvæðinu mældist 203,9 stig í júlí og hækkaði um 1,3% að nafnvirði á milli mánaða, þ.e. frá júní og fram í júlí. Hækkunin er nálægt einu staðalfráviki miðað við síðustu 5 ár og því er um nokkuð eðlilega mánaðarsveiflu að ræða. 12 mánaða breyting á vísitölu þjóðskrár mælist 1,75% að nafnvirði og hækkar um 0,8 prósentur á milli mánaða.
Nýjar tölur þjóðskrár sýna að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu er farið að taka við sér. Vísitala Þjóðskrár fyrir leiguverð á höfuðborgarsvæðinu mældist 203,9 stig í júlí og hækkaði um 1,3% að nafnvirði á milli mánaða, þ.e. frá júní og fram í júlí. Hækkunin er nálægt einu staðalfráviki miðað við síðustu 5 ár og því er um nokkuð eðlilega mánaðarsveiflu að ræða. 12 mánaða breyting á vísitölu þjóðskrár mælist 1,75% að nafnvirði og hækkar um 0,8 prósentur á milli mánaða.
Hækkunartaktur leiguverðs hefur almennt verið niður á við um nokkuð langa hríð en nú eru vísbendingar um að sú þróun gæti verið að snúast við. Þrátt fyrir að árshækkun leiguverðs sé farin að hækka að nafnvirði hefur leiguverð samkvæmt vísitölunni á föstu verðlagi hins vegar lækkað um 2,42%. Það er því enn um töluverða raunverðslækkun leiguverðs að ræða á milli ára.
Eins og fram kom í síðustu mánaðarskýrslu HMS mældist 12 mánaða breyting vísitölu HMS fyrir leiguverð að nafnvirði á höfuðborgarsvæðinu um 1,5% í júnímánuði en 0,54% lækkun mældist í nágrenni höfuðborgarsvæðis og 2,13% hækkun á landsbyggð. Það vekur athygli að Þinglýstum leigusamningum fækkar á milli ára þar sem þeir voru 23% færri á höfuðborgarsvæðinu í júní á þessu ári miðað við sama tíma í fyrra. Í nágrenni höfuðborgarsvæðis mældist 40% samdráttur í þinglýstum leigusamningum en á landsbyggð fækkaði þeim um 19%. Þetta bendir til þess að framboð gæti verið að minnka en á sama tíma sýnir búsetumæling HMS í maí og júní að leigumarkaður sé enn jafn hlutfallslega stór og hann var fyrir ári síðan. Leigumarkaðurinn hefur mælst 13% að meðaltali á landinu öllu í gegnum heimsfaraldurinn. Í sömu spurningakönnun á vegum HMS kom í ljós vísbending um að framboð af hentugu leiguhúsnæði sé að minnka. Hlutfall svarenda sem telja framboð vera nægt af húsnæði sem hentar sér og sinni fjölskyldu lækkar um 9 prósentur frá síðustu könnun sem framkvæmd var í febrúar.[1]