17. september 2024

HMS og aðrir hagaðilar vilja styrkja uppbyggingu innviða fyrir mannvirkjarannsóknir

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

HMS, ásamt 16 öðrum hagaðilum í mannvirkjagerð, hafa lagt til að uppbygging innviða fyrir mannvirkjarannsóknir verði eitt af verkefnum á nýjum vegvísi um rannsóknarinnviði 2025. Komist tillagan á vegvísinn fengju umsóknir um styrki fyrir innviðauppbyggingu í mannvirkjarannsóknir forgang hjá Innviðasjóði, ásamt öðrum verkefnum sem eru valin á vegvísinn.

Rannís kynnti undirbúning nýs vegvísis um rannsóknarinnviði í maí sl., en í honum munu áherslur stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum koma fram, auk  verkefna sem hljóta forgang í styrkúthlutun stjórnvalda fyrir uppbyggingu rannsóknarinnviða. Í kynningu sinni auglýsir Rannís eftir tillögum á nýja vegvísinn.

HMS, ásamt öðrum hagaðilum í mannvirkjagerð hafa nú lagt fram tillögu um uppbyggingu innviða fyrir mannvirkjarannsóknir, sem lesa má hér. Hagaðilarnir eru Tæknisetur, HR, HÍ, LHÍ, Cowi, Efla, BM Vallá, Steypustöðin, Malbikunarstöðin Höfði, Colas, Verkfræðingafélag Íslands, Arkitektafélag Íslands, Steinsteypufélag Íslands, Samtök iðnaðarins, Grænni byggð, Vegagerðin og HMS.

Markmiðið með að senda inn þessa tillögu á innviðavegvísinn er einkum að koma innviðauppbyggingu mannvirkjarannsóknir í forgang hjá Innviðasjóði. Ef tillagan kemst á vegvísinn, þá hafa umsóknir um styrki fyrir innviðauppbyggingu í mannvirkjarannsóknum forgang, ásamt öðrum verkefnum sem eru valin á vegvísinn.

Það er sameiginlegur hagur allra hagaðila í mannvirkjageirunum að mannvirkjarannsóknir komist á nýjan innviðavegvísi. Með því opnast mun fleiri styrktækifæri fyrir innviðauppbyggingu í rannsóknaumhverfinu. Ef tillagan kemst á innviðavegvísinn, þá er það síðan rannsóknasamfélagsins að vinna saman að umsóknum um styrki, eftir því sem við á.

Aðgerðirnar í  Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar er ákveðinn grunnur að tillögunni; einkum hvað varðar skilgreininguna á rannsóknastefnu í mannvirkjagerð (aðgerð 1.1.a) og greiningu á núverandi rannsóknabúnaði í landinu (aðgerð 1.2). Það má leiða líkum að því að styrkumsóknir um innviðauppbyggingu sem byggja á grunni þeirra greininga, verði fyrir vikið sterkari.

Alls bárust 26 tillögur að verkefnum á vegvísi um rannsóknarinnviði en hlekki á þær allar má nálgast hér. Nánari upplýsingar verða veittar þegar niðurstöður liggja fyrir.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS