27. nóvember 2024

HMS leiðir átaksverkefni til að draga úr brunahættu við lagningu þakpappa

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Í kjölfar brunans í Kringlunni hefur HMS og aðrir hagaðilar unnið að úrbótum um lagningu þakpappa
  • Mikilvægt er að starfsleyfi sé fyrir öll störf sem fela í sér notkun á opnum eldi, líkt og raunin er á hinum Norðurlöndunum
  • Nýtt RB-blað um verklag og öryggi við lagningu þakpappa er væntanlegt 23. desember

Verklagi við lagningu þakpappa er ábótavant hér á landi, en á undanförnum árum hafa margir brunar átt sér stað vegna þessa. Efla ætti fræðslu tengdri byggingarvinnu sem felur í sér notkun á opnum eldi og gera ætti kröfu um starfsleyfi fyrir slíka vinnu. Þetta er á meðal niðurstaðna átaksverkefnis um úrbætur um lagningu þakpappa sem HMS leiðir, en vænta má RB-leiðbeiningablaðs um málið í næsta mánuði.

HMS hefur leitt átaksverkefnið á síðustu mánuðum, en stofnunin hóf það í kjölfar eldsvoða sem varð í Kringlunni í sumar og olli miklu eignatjóni í þakvirki út frá lagningu þakpappa.

Átaks­verk­efn­ið bygg­ir á þrem­ur lyk­il­þátt­um:

  1. Útgáfa leiðbeiningarblaðs (Rb-blaðs) um verklag og öryggisatriði við lagningu þakpappa með notkun elds
  2. Þróun fræðsluefnis og námskeiða fyrir iðnaðarmenn og fagaðila
  3. Tillögur til breytinga á regluverki til að tryggja öryggi við heita vinnu

Breið sam­staða fag­fólks

HMS óskaði eftir tilnefningum frá helstu hagsmunaaðilum í byggingargeiranum til að mynda starfshóp um úrbætur um lagningu þakpappa. Viðtökur voru framar væntingum og ljóst að breið samstaða er hjá öllum fagaðilum í að vinna saman að bættu verklagi. Starfshópurinn myndaðist hratt og samanstendur af fulltrúum frá Samtökum Iðnaðarins, Vinnueftirlitinu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Brunatæknifélaginu ásamt fulltrúum HMS. Við skipun fulltrúa lagði verkefnastjórn áherslu á að tilnefndir fulltrúar hefðu yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af slíkum verkframkvæmdum.

Ný leið­bein­ing á leið­inni og fræðsla auk­in

Starfshópurinn vinnur nú að gerð RB-leiðbeiningablaðs um verklag og öryggi við lagningu ábrædds þakpappa með notkun elds og er fyrirhuguð útgáfa 23. desember nk. Leiðbeiningarnar innihalda verklagsreglur og gátlista til að auðvelda framkvæmdaaðila skipulag og auka öryggi á verkstað. Þar sem útgáfa Rb-blaða er í höndum HMS var ákveðið að það yrði fyrsta skref verkefnisins sem hluti af „heitri vinnu“ sem nær yfir öll verk þar sem hitagjafi er notaður. Samhliða vinnunni er unnið að undirbúningi námskeiða, sem er næsta skrefið. Fagaðilar hafa kallað eftir fræðslu tengdri heitri vinnu. Þessi vegferð styður við og er góður undirbúningur í átt að því að innleiddar verði kröfur um starfsleyfum fyrir heita vinnu.

Kröf­ur gerð­ar til starfs­leyf­is í reglu­verk­inu

Á hinum Norðurlöndunum er gerð krafa um starfsleyfi fyrir öll störf sem fela í sér notkun á opnum eldi, svo sem við lagningu þakpappa, suðu og skurð. Í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi þurfa þessir aðilar að sækja námskeið og hljóta viðeigandi þjálfun til að fá starfsleyfi. HMS telur mikilvægt að setja sambærilegar kröfur hér á landi, sérstaklega þar sem fjöldi bruna við lagningu þakpappa hefur sýnt fram á þörf fyrir aukið öryggi. HMS vinnur nú að útfærslu tillagna um slíkar kröfur og mun senda þær ráðuneytinu í næstu viku.

Með þessu verkefni leitast HMS við að efla öryggi í byggingargeiranum, auka fræðslu og stuðla að ábyrgari vinnubrögðum. Þetta er stórt skref í átt að öruggara og faglegra vinnuumhverfi á Íslandi. HMS hvetur alla aðila í byggingargeiranum til að kynna sér leiðbeiningar sem verða gefnar út og taka þátt í námskeiðum sem styðja við markmiðið um öruggari framkvæmd við lagningu þakpappa.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS