20. desember 2024
3. október 2024
Gildum samningum fjölgaði í september í Leiguskrá
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Gildum leigusamningum fjölgaði um rúmlega 800 í september, eftir að þeim fækkaði um 140 milli mánaða í ágúst
- Flestir samningar voru um markaðsleigu sem tóku gildi og féllu úr gildi í september
- Hægt er að nálgast upplýsingar um leiguverð og fjölda leigusamninga í Leiguverðsjá HMS
Alls tóku 1.583 nýir leigusamningar gildi í september á sama tíma og 786 samningar féllu úr gildi. Þannig fjölgaði gildum samningum um 800 í september eftir að hafa fækkað um 140 í ágúst. Á bilinu 75 til 80 prósent af leigusamningum sem bæði tóku gildi og féllu úr gildi í september vörðuðu samninga um markaðsleigu*. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr Leiguskrá nú í upphafi októbermánaðar.
Um þriðjungur allra samninga í gildi eru staðsettir í Reykjavík vestur
Alls voru 22.571 samningur í gildi í Leiguskrá nú í upphafi októbermánaðar og þar sem 16.041 samningur vörðuðu íbúðir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu. Á myndinni hér að neðan má sjá fjölda gildra leigusamninga flokkaðir eftir hverfum á höfuðborgarsvæðinu og hagnaðarflokki. Myndin sýnir að flestir leigusamningar eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu um íbúðir staðsettar í Reykjavík vestur eða í póstnúmerum 101, 102, 105 og 107.
Um 52 prósent allra gildra samninga á höfuðborgarsvæðinu eru um markaðsleigu, eða um íbúðir sem leigðar eru út af einstaklingum og fyrirtækjum sem rekin eru i hagnaðarskyni. Hins vegar eru samningar utan markaðsleigu í ákveðnum hverfum í minnihluta, eins og í Mosfellsbæ, Garðabæ og á Seltjarnarnesi, en þar eru einnig fáir leigusamningar skráðir.
Leiguverðsjá HMS
Ný leiguverðsjá er nú komin út á vef HMS, en hana má nálgast með því að smella hér. Með leiguverðsjánni geta leigusalar og leigutakar nálgast upplýsingar um markaðsverð íbúða og fjölda leigusamninga í hverjum mánuði.
Í nýju leiguverðsjánni er hægt að skoða leiguverð eftir mánuðum, landshluta, sveitarfélagi, tegund leigusala, herbergjafjölda, stærð og samningsgerð.
Upplýsingar í Leiguskrá í sífelldri uppfærslu
Hægt er að skrá upplýsingar um leigusamninga afturvirkt í Leiguskrá. Þar af leiðandi er möguleiki á að upplýsingar um fjölda samninga sem taka gildi og falla úr gildi eftir mánuðum taki breytingum yfir tíma. Ekki er því hægt að tryggja fullkomið samræmi í birtingu slíkra upplýsinga frá einum tíma til annars.
*Markaðsleiga vísar til leigusamninga um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS