22. nóvember 2024
24. maí 2024
Fleiri leigjendur keppast um hverja íbúð en áður
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Virkum notendum á leiguvefnum myigloo.is hefur fjölgað um 67 prósent á einu ári
- Að meðaltali voru þrír virkir leitendur á hverja auglýsta leiguíbúð á vefnum í apríl
- Eftirspurnarþrýstingur hefur aukist á leigumarkaði í takt við hækkandi leiguverð
Á síðustu mánuðum hefur eftirspurn eftir leiguhúsnæði aukist verulega og fleiri leigjendur keppast nú um hverja íbúð en áður, samkvæmt tölum sem HMS hefur fengið af leiguvefnum myigloo.is. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýútgefinni mánaðarskýrslu stofnunarinnar.
Myigloo.is er markaðstorg fyrir leigusala og leigutaka. Leiguvefurinn er eini vefurinn sem býður einstaklingum á að skrá leigusamningana sína í leiguskrá HMS og er helsta heimild HMS um leiguíbúðir sem eru leigðar út af einstaklingum og um auglýsingar á slíkum leiguíbúðum.
Eftirspurn umfram framboð á leigumarkaði
Fjöldi virkra notenda á leiguvefnum var yfir 1.800 í apríl, sem er 67 prósent meira en í apríl í fyrra. Á síðasta ári var fjöldi virkra notenda á bilinu 900 til 1.300 í hverjum mánuði. Samkvæmt Leiguskrá HMS eru einungis 500 til 800 leigusamningar gerðir í gegnum vefinn í hverjum mánuði, sem bendir til að eftirspurnin sé töluvert umfram framboð leiguíbúða á núverandi verðlagi.
Myndin hér að ofan sýnir hlutfall virkra leitenda af fjölda nýrra leigusamninga á síðustu átta mánuðum. Undir lok síðasta árs var hlutfallið um 1,5 en frá ársbyrjun hefur það vaxið mikið. Í apríl var hlutfallið 3,1 sem þýðir að fjöldi notenda í virkri leit var þrefaldur á við fjölda samninga sem tóku gildi í mánuðinum.
Þessi þróun bendir til þess að eftirspurnarþrýstingur hafi aukist töluvert á leigumarkaði, þar sem fleiri tilvonandi leigjendur keppast nú um hverja íbúð en áður. Á sama tíma hefur vísitala leiguverðs hækkað um 10,7 prósent á ársgrundvelli frá maí 2023, en til samanburðar mældist verðbólga 6,0 prósent í apríl. HMS gerir ráð fyrir að leiguverð muni halda áfram að hækka ef eftirspurnarþrýstingurinn eykst enn frekar.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS